Skráir og les í lófa Austfirðinga

Jana Napoli hefur undanfarin fimm ár tekið myndað hendur Íslendinga og boðið þeim sem vilja að auki upp á lófalestur. Með þessu leitast Jana við að svara spurningum um þróun Íslendinga samanborið við aðrar þjóðir.

„Ég er búin að skoða lófa 1.600 Íslendinga undanfarin sumur en ég hef ekki komið áður til Austurlands,“ segir Jana sem verið hefur á ferð um svæðið síðustu daga og er í dag og á morgun stödd á Reyðarfirði.

Tíu ár eru síðan Jana kom fyrst til Íslands og þá veitti hún því athygli að hægra heilahvelið virðist ráðandi hjá þeim sem birtist í yfirstjórn vinstri handar. Almennt eru Íslendingar rétthentir sem Jana segir lærða hegðun. Þetta þýði hins vegar að einstaklingarnir hafi færni til að nota bæði heilahvelin og færni þeirra.

„Ef þú spennir greipar og þumalfingur vinstri handar leggst yfir þann hægri þá er hægra heilahvelið ráðandi. Prófið að taka hendurnar í sundur og setja þær svo aftur saman þannig að hægri höndin verði ofan á. Því fylgir undarleg tilfinning, er það ekki?“ segir Jane.

Samkvæmt hennar athugunum er hægra heilahvelið ráðandi hjá 62% Íslendinga, sem hún segir hærra hlutfall en hjá flestum öðrum þjóðum. „Sköpunarkrafturinn kemur úr hægra heilahvelinu en rökvísin úr því vinstra. Vinstra heilahvelið er alltaf að spyrja spurninga. Yfirvöld og kirkjan fyrr á tímum vildu ekki þannig fólk og eltu það uppi annars staðar en Ísland var of langt í burtu.

Hendurnar segja svo margt um okkur. Handaför voru áður fyrstu ummerkin sem fólk skildi eftir sig á nýjum svæðum, setti far sitt á hella. Út frá höndunum getum við lesið ýmislegt um manneskjuna, til að mynda við hvað hún starfar.“

Hvernig hafa hendurnar þróast?


Í rannsókn sinni tekst Jana á við spurninguna um hvort hægt sé að skilgreina þjóð út frá höndum fólksins. „Rannsóknaspurningin mín er hvort hægt sé að skilgreina þjóð út frá lögun handanna. En hvað þýðir að vera íslenskur árið 2023? Hvernig hefur það þróast?

Áður fyrr mynduðu bændur og sjómenn grunninn að þjóðinni. Síðan eru skáldin sem varðveita tungum. Mig langar að sjá hvort þetta séu enn máttarstólparnir.“

Jana, sem ferðast hefur víða um heim, býður þeim sem taka þátt í rannsókninni upp á lófalestur en hann hefur hún stundað í 65 ár. Fyrst eru þó teknar myndir af höndum fólks, enda er það aðaltilgangur rannsóknarinnar. Hún er síðan í samstarfi við Buffalo-háskóla í New York um sem notar gervigreind til að greina andlit fólks. Þá tækni stendur til að aðlaga að höndunum til frekari úrlestrar.

„Við sjáum mun. Hjá sumum er lófinn stærri á breidd heldur en hæðina. Við höfum líka aðgang að gögnum sem safnað var hérlendis fyrir nokkrum áratugum. Þær benda til að hendur Íslendinga, að minnsta kosti Reykvíkinga, hafi verið breiðari þá. Við sjáum líka mun milli svæða, hendurnar á Austfirðingum eru ekki jafn flatar og á Akureyringum. Ég hef sérstakan áhuga á að fá til mín fjölskyldur eða ættliði til að sjá hvernig lögun handanna gengur í erfðir.“

Jana segist vonast til að ná að mynda hendur 1% þjóðarinnar. Þá hafi hún safnað nógu miklum upplýsingum þannig að hægt sé að vinna frekar með þær. Því leitar hún að Austfirðingum sem vilja taka þátt í rannsókninni.

Hún verður í Austurbrú á Reyðarfirði morgun og í Melbæ á Eskifirði á sama tíma á miðvikudag. Hún heldur síðan áfram um Austfirði og verður á svæðinu fram í miðjan júlí. Hægt er að panta hjá henni tíma á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða í gegn Hands of Iceland á Facebook. Konur verða að koma með karla með sér til að tryggja jafnt kynjahlutfall í rannsókninni. Þátttakendur verða að eiga minnst eitt íslenskt blóðforeldri. Ekki má vera með naglalakk.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar