Skriðuklaustur: Fallbætur nýttar í menningarsjóð
Viljayfirlýsing hefur verið undirrituð milli mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Gunnarsstofnunar um að ráðherra beiti sér fyrir þvi´að sú fjárhæð, sem nemur andvirði fallbóta Landsvirkjunar fyrir þau vatnsréttindi sem nýtt eru í Kárahnjúkavirkjun, renni í Menningarsjóð Gunnars Gunnarssonar.Sjóðurinn verður stofnaður með sérstakri skipulagsskrá á forræði mennta- og menningarmálaráðuneytis. Undirritunin fór fram á Skriðuklausturshátíð, sem fram fór á Skriðuklaustri í Fljótsdal 19. ágúst. Auk ráðherra undirritaði Gunnar Björn Gunnarsson, afkomandi skáldsins og stjórnarformaður stofnunarinnar, viljayfirlýsinguna.
Við sama tilefni var fornleifasvæðið á Skriðuklaustri opnað almenningi. Sjálfboðaliðar hafa með aðstoð hleðslumeistarar byggt grunnform klaustursins upp þannig að gestir geta skoðað sig um og áttað sig á herbergjaskipan.
Þá var undirrituð verndaráætlun svæðisins sem er samkomulag milli Gunnarsstofnunar og Fornleifaverndar ríkisins. Í henni er bæði tekið á verndun klausturrústanna og aðgengi ferðamanna að þeim, en áætlað er að um 20.000 manns komi í Skriðuklaustur árlega. Ofan við svæðið hefur verið smíðaður rúmgóður útsýnispallur úr lerki úr Hallormsstaðarskógi.