Síldarkvótanum komið í höfn
Nú styttist í að veiðum skipa HB Granda á síld úr norsk-íslenska síldarstofninum ljúki á þessu sumri. Veiðarnar hafa verið stundaðar innan íslensku lögsögunnar og hafa þær gengið vonum framar. Hvert þriggja uppsjávarveiðiskipa fyrirtækisins á eftir að landa einu sinni á Vopnafirði, haldist veiði góð og veður skikkanlegt.
Á vefsíðu HB Granda er haft eftir Vilhjálmi Vilhjálmssyni, deildarstjóra uppsjávarsviðs að veiðarnar innan íslensku lögsögunnar hafi gengið það vel í sumar að hverfandi líkur séu á að fyrirtækið þurfi að nýta réttinn til að veiða hluta kvótans í norsku lögsögunni. Að sögn Vilhjálms kom Ingunn AK til Vopnafjarðar með um 1.000 tonna afla sl. föstudag og í gær kom Lundey NS þangað með um 900 tonn.