Íslensk kornrækt á aukna möguleika
Landbúnaðarráðherra kynnir nýja skýrslu um kornrækt og tækifæri hennar í dag. Í skýrslunni er meðal annars fjallað um stöðu kornræktarinnar, hagkvæmni og markaðslegar forsendur ásamt því að meta framtíðarhorfur greinarinnar.
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru að mikill vöxtur hefur verið í kornrækt á Íslandi á síðustu árum og heildarstærð kornakra aukist jafnt og þétt. Talið er að pláss sé fyrir tvöföldun kornræktar á næstu 2-3 árum eða svo og nær þreföldun á næstu 5-7 árum. Rekstrarlegar forsendur fyrir kornrækt eru jákvæðar og hlýnandi veðurfar mun auka uppskeru og bæta ræktunarskilyrði korns á Íslandi.
Kornrækt hefur aukist verulega á síðustu árum og skilar bæði beinum og óbeinum ábata í landbúnaði. Auk þess að auka framleiðni á íslenskum bændabýlum skapar kornræktin bættar forsendur í grasrækt með sáðskiptum sem skipta miklu um magn og gæði heyfengs. Sjávarútvegs-og landbúnaðarráðuneyti vill stuðla að sem mestri aukningu í virðisauka í atvinnuveginum og fól ráðuneytið ráðgjafarfyrirtækinu Intellecta að vinna greiningu á forsendum þess að stórauka kornrækt í landinu. Ráðgjafarstofan hefur í samstarfi við aðila frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Bændasamtökum Íslands og Félagi kornbænda og fleiri unnið að greiningu á þeim möguleikum sem felast í kornræktinni og hvaða aðgerðir stjórnvalda væru mikilvægastar til að stuðla að jákvæðri þróun greinarinnar.
Forsendur aukinnar kornræktar eru þegar fyrir hendi og með þeirri hlýnun sem þegar má greina verður kornrækt æ mikilvægari búgrein í landinu. Ræktunin mun með tímanum ná til fleiri tegunda en byggs sem nú er einkum ræktað og sem dæmi má nefna að ræktun vetrarhveitis hefur heppnast nokkur á í röð á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum.
Skýrslunni verður dreift á kynningarfundi á Hótel Sögu í dag og sett á vef ráðuneytisins og Bændasamtakanna að lokinni kynningu.