Íslensk-norskur tónfundur í Skriðuklaustri
Sunnudaginn 11. október verða haldnir tónleikar á Skriðuklaustri þar sem söngkonan Liv Skrudland og sellóleikarinn Karin Nielsen flytja norsk og íslensk lög. Listamennirnir koma frá Norður-Noregi og hafa að undanförnu dvalist í gestaíbúðinni Klaustrinu og er dvölin hluti af samstarfi menningarráðanna í Vesterålen og á Austurlandi.
Liv Skrudland lærði við Rogaland Musikkonservatorium. Hún er alhliða söngvari en þekkt fyrir túlkun sína á kammertónlist og ljóðatónleika. Karin Nielsen nam sellóleik bæði í Svíþjóð og Noregi og hefur m.a. spilað með Fílharmóníusveitinni í Osló en vinnur nú sem svæðistónlistarmaður í Tromsfylki.
Á Skriðuklaustri hafa þær Liv og Karin æft nýja efniskrá sem byggir á samtímatónlist og þjóðlögum frá báðum löndum. Á tónleikunum munu þær m.a. flytja lög eftir Þorstein Hauksson og Sommerfeldt í bland við þekkt kvæði eins og Sofðu unga ástin mín, Snert hörpu mína og kvæði Olavs H. Hauge. Þær munu flytja sömu efnisskrá á tónleikum á Gljúfrasteini í Mosfellssveit laugardaginn 17. október. Tónleikarnir á Skriðuklaustri hefjast kl. 15 og aðgangur er ókeypis. Opið verður hjá Klausturkaffi bæði fyrir og eftir tónleikana.