Smáframleiðendur komast í feitt í Matsjánni

„Þetta er kjörinn vettvangur fyrir smáframleiðendur sem vilja öðlast meiri þekkingu og kunnáttu í vöruþróun, markaðssetningu og auðvitað efla almenna hæfni sína og tengslanetið,“ segir Oddný Anna Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðanda matvæla.

Ýmsar mismunandi áskoranir geta mætt þeim smáframleiðendum sem sérhæfa sig í matvælagerð og þá oft ekki síst hver næstu skref eru eftir að búið er að þróa og framleiða vöru. Það er einmitt tilgangur nýs verkefnis, Matsjárinnar, að hlúa að þeim smáframleiðendum sem eru óvissir um ferlið eða skrefin sem þarf til að koma vörum sínum sem víðast og þróa jafnframt verkfæri til að auka færni þeirra í öllum sínum rekstri.

Það eru Samtök smáframleiðanda matvæla sem standa að Matsjánni auk landshlutasamtaka sveitarfélaga en heitið stendur fyrir fjórtán vikna verkefni opið öllum sem áhuga hafa að efla þekkingu sína og færni í framleiðslu matvæla. Oddný Anna segir verkefnið byggt á Ratsjánni sem var sérstakt stuðningsverkefni fyrir smærri aðila í ferðaþjónustu en öll verkefnastjórnin er í höndum RATA.

„Það verkefni þótti takast framúrskarandi vel og nú ætlum við að leika sama leik en með smærri matvælaframleiðendum. Verkefnið er öllum opið og fer fram á netinu. Gróflega eru þetta heimafundir, fræðsluerindi plús verkefnavinna og ráðgjöf í sjö lotum og að þessu loknu eiga þátttakendur að vera miklu nær um þróun, vinnslu, markaðssetningu og allan sinn rekstur. Þetta eru ráð og lausnir frá þeim er hafa gengið þennan veg áður með góðum árangri. Þetta mun nýtast öllum smærri matarframleiðendum vel.“

Matsjáin hefst þann 6. janúar og stendur til 7. apríl og munu þátttakendur allir hittast á sérstöku lokahófi að því loknu og bera saman bækur sínar.

Nánar má forvitnast um Matsjánna og skrá þátttöku hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.