Söngkeppni framhaldsskólanna: Austfirsku skólarnir sitja báðir heima
Hvorki framlag Menntaskólans á Egilsstöðum né Verkmenntaskóla Austurlands verða meðal þeirra tólf atriða sem keppa til úrslita í Söngkeppni framhaldsskólanna á laugardagskvöld. Djúpavogsbúinn Aron Daði Þórisson verður fulltrúi Austfirðinga í keppninni.
Aron Daði keppir fyrir hönd Menntaskólans í Kópavogi ásamt Jennu Katrínu Kristjánsdóttur. Þau flytja lagið Colours eftir Couplegrove.
Lögin tólf voru valin áfram á þann veg að atkvæði úr símakosningu vógu 50% á móti atkvæði dómnefndar. Gagnrýnt var að þetta væri fjölmennari skólunum á höfuðborgarsvæðinu í hag.
Fimm landsbyggðarskólar komust samt áfram: Fjölbrautaskóli Suðurlands, Framhaldsskólinn á Húsavík, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum, Menntaskólinn á Ísafirði og Verkmenntaskólinn á Akureyri. Höfuðborgarskólarnir eru á móti: Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Kvennaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn í Kópavogi, Menntaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn við Hamrahlíð, Tækniskólinn og Verslunarskólinn.
Athygli vekur að stórir skólar á borð við Borgarholtsskóla, Menntaskólann á Akureyri og Fjölbrautarskólann í Ármúla komust ekki í lokakeppnina.
Fleira hefur vakið deilur við undirbúning keppnina. Að atriðunum skuli fækkað í tólf fyrir lokakvöldið þar sem allir sem viljað hafa fengið að vera með. Staðsetningin olli einnig deilum þar sem margir töldu vera komna hefð á Akureyri.
Talsmenn keppninnar svara því til að gera hafi þurft breytingar á keppninni til að hún yrði send út í sjónvarpi. „Það var annaðhvort að gera þær breytingar sem þurfti að gera eða láta keppnina niður falla,“ skrifa þeir á Facebook-síðu keppninnar. Þar er fjöldi athugasemdum frá framhaldsskólanemum og fleirum áhugamönnum sem langflestir vona að þetta fyrirkomulag sé ekki komið til að vera.