![](/images/stories/news/2015/murmur.jpg)
Spila á Bræðslunni og vinna að plötu
Árið verður viðburðaríkt hjá austfirska rokktríóinu Murmur. Sveitin staðfesti nýverið veru sína á stærstu tónleikunum til þessa og undirbýr plötu.
Sveitin verður meðal þeirra sem spila á Bræðslunni á Borgarfirði eystra í sumar og það er tilhlökkunarefni fyrir gítarleikarann, Ívar Andra Klausen.
„Ég hef farið á hátíðina síðan ég var pjakkur. Þetta er spennandi og skemmtileg hátíð þar sem allir eru glaðir og ekki skemmir fyrir að ég er ættaður þaðan,“ segir hann.
Ívar er frá Egilsstöðum en hann skipar sveitina ásamt Bergsveini Ás Hafliðasyni úr Berufirði og Heimir Andri Atlason frá Eskifirði. Þeir hlutu nýverið styrk úr Uppbyggingarsjóði Austurlands til að gefa út sína fyrstu plötu.
„Ég er að semja og klára ný lög sem við fullvinnum í sameiningu. Við sækjumst eftir "óld skúl analog sándi“ og ætlum að taka upp hjá vini okkar Vinny Vamos á Stöðvarfirði. Vonandi verður allt tilbúið á þessu ári.“