Spila þar til stríði lýkur

Listahópurinn Pussy Riot, sem komist hefur í heimsfréttirnar fyrir mótmæli sín gegn stjórnvöldum í heimalandinu Rússlandi, kom þrisvar fram á LungA-hátíðinni á Seyðisfirði í sumar. Hópurinn dvaldi þar í viku ásamt fjölskyldu og vinum

„Við höldum áfram að spila þar til stríðinu í Úkraínu lýkur. Tónleikaferðalagið Anti War Tour nýtir öll tækifæri til að senda skýr skilaboð um andúð okkar á stríðinu. Á hverjum degi vona ég að því ljúki og trúi að það verði fljótlega,“ segir Diana Burkot, meðlimur sveitarinnar.

Þær lýsa sýningum sínum sem margmiðlunarsýningu, blöndu af leikhúsi, tónlist, myndbandslist og mótmælum. „Sýningin er á rússnesku en það er alltaf enskur texti fyrir áhorfendur til að þeir skilji sem best raunveruleika Rússlands og hversu erfitt það er að berjast fyrir frelsinu,“ útskýra þær.

Listsköpun í stríði


Alina Petrova talar um mikilvægi listsköpunnar á svona tímum. „Ég las samtal fréttamanna um hvernig best væri að skapa list á stríðstímum. Vinkona mín er þeirrar skoðunar að list breyti engu um úrslit stríðs.

Ég tel að aldrei sé betri tími til að sýna glæpina, dauðann eða heimildir um stríð til áminningar fyrir fólk um grimmdina sem á sér stað heldur en á meðan stríðinu stendur. Það þarf að halda því að fólki svo það gleymist ekki. Þannig getur listin skipt máli.

Þú getur lesið um stríðið, drápin og fólkið en þegar þú sérð andlitin og blóðið sem rennur, þá hefur það áhrif svo ég tel þetta mikilvægan tíma fyrir list í heimildaformi.“

Telur fólk víða hafa gefist upp


Þetta er ekki í fyrsta sinn sem meðlimir Pussy Riot heimsækja Ísland þótt þær hafi komið misoft. Diana hefur sennilega komið oftast, 7 eða 8 sinnum. Hún segist vera dolfallin fyrir landinu.

„Það er bara svo margt áhugavert við Ísland, til dæmis að hafa átt fyrsta kvenkyns forsetann í heiminum,“ segir hún og bætir við hve áhugasöm hún sé um gott gengi kvenréttindamála á Íslandi.

„Mér finnst ég líka bara hafa heyrt af umræðu um kapítalisma hér og í Noregi, sem mér líkar vel. Ég upplifi víða annars staðar að fólk sé búið að gefast upp fyrir kapítalismanum. Ég upplifi það öðruvísi hér og ég tel að við ættum að berjast á móti þessari þróun efnahagsmála.“

Rússland sofnað á verðinum


Meðlimir Pussy Riot flúðu Rússland árið 2022. Áður höfðu þær staðið í stappi við þarlend stjórnvöld og meðal annars endað í fangelsi. „Ég veit að rússneskt samfélag er frábrugðið því íslenska en mér líður eins og að fyrir kannski 10 árum síðan hafi verið til staðar einhverskonar lýðræði í Rússlandi.

Síðan hafi fólk hægt og rólega sofnað á verðinum og vaknað einn daginn við algjört einræði. Það er rosalega mikilvægt að við berjumst á móti einræðinu og fyrir mannréttindum, séum aktivistar og tökum á hverjum degi lítil skref í rétta átt. Ef við gerum það ekki mun pólitíkin og fólkið sem ræður alltaf drekkja efnahaginum,“ segir Diana.

Þær hræðast þróunina í mörgum löndum þar sem til dæmis er þrengt að réttindum kvenna til þungunarrofs. „Stundum er eins og við séum að fara aftur í tíma. Því verðum við að vera vakandi því ef við sofnum á verðinum renna réttindin úr greipum okkar.“

Fólk hefur gleymt því að ríkisstjórnin, sem stofnun, er gerð fyrir samfélagsþegna sína. Hún væri ekki til ef ekki fyrir okkur og skattgreiðslur okkar. Hún á því auðvitað að vinna með og fyrir okkur.“ Stúlkurnar í Pussy Riot hræðast að fólk almennt láti sig ekki stjórnmál varða í misskilningi um að það sé ekki nógu „töff“.

Að afsaka upprunann


Þær segjast hrifnar af andrúmslofti LungA „Ísland er með svo einstakt andrúmsloft og fólk hérna er svo smekklegt, ég er á fullu að skrifa niður punkta um tísku og klæðnað,“ segir Olga og hlær.

Systir Diönu býr enn í Rússlandi en kom til Seyðisfjarðar. Það var önnur ferð hennar út fyrir heimalandið á þremur árum. „Það sem kemur henni mest á óvart að það hati hana ekki allir. Þeim er sagt það úti, að allir alls staðra hati Rússa,“ segir Diana sem sjálf hefur upplifað slíka tilfinningu. „Ég sat eitt sinn á kaffihúsi í Þýskalandi og þjónninn spurði mig hvaðan ég kæmi. Ég sagði bara: fyrirgefðu að ég sé frá Rússlandi.“

Pussy Riot á Seyðisfirði, frá vinstri: Masha Alekhina, Alina Petrova, Diana Burkot og Olga Borisova. Mynd: Karitas Harpa

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.