Séra Gunnlaugur: Sumir hafa lagst í herför gegn Guði og kirkju

gunnlaugur_stefansson2.jpgEnn virðist sem græðgisfár og sjálfhyggja séu við völd í íslensku samfélagi. Íslensk þjóð þráir samstöðu í sál sína. Þótt jólin séu tími sameiningar hafa sumir reynt að auka á sundrungina og tómhyggjuna með herför gegn Guði og kirkju.

 

Þetta kom fram í jólapredikuninni sem Gunnlaugur flutti á Stöðvarfirði og í Heydölum á aðfangadagskvöld. „Engin hátíð megnar að sameina þjóðina betur og rækta dýrmæt lífsgæði eins og jólin. Og skilaboðin eru einföld og skýr: Þú skalt elska.

Fjölskyldan og ástvinir safnast saman eins og hirðarnir og vitringarnir. Það skiptir máli hvar þú ert á jólum. Margir fara langan veg og leggja mikið á sig til að geta verið með sínum nánustu á jólunum.“

Gunnlaugur segir íslensku þjóðina þrá frið, mildi og samstöðu í sál sína. Enn virðist sem „græðgisfárið með sundurlyndi og sjálfshyggju sé enn við völd. Hvar er auðmýktin, sanngirnin, virðingin, ábyrgðin? Mikið er leitað í alls konar tómhyggju og sumir hafa lagst í herför gegn Guði og kirkju samkvæmt fréttum fjölmiðla.

En svo koma jólin og síst vill þjóðin án þeirra vera, heldur ekki fara á mis við þá fegurð og birtu sem fagnaðarerindið um fæðingu frelsarans boðar. Þá leita margir inn í hjarta sitt þar sem barnið hvílir í vöggunni, leita ekki langt yfir skammt og spyrja: Hvað fyllir hátíð á jólum gleði og fögnuði? Gjafirnar, góðgjörðir og ljósin öll?

Allt skiptir það máli af því að tilefnið er verðugt. En um fram allt er það hin næma vitund um göfugt tilefni sem kallar á samfögnuð, hlýju, umhyggju.“

Í predikuninni sagði Gunnlaugur frá kærri vinkonu sem sigraðist á banvænum sjúkdómi.

„Mér verður hugsað til traustrar vinkonu minnar sem greindist með dauðans mein á síðasta ári og skynjaði að hún ætti ekki marga lífdaga í vændum.

En fyrir óútskýrða blessun náði hún bata og skrifar á facebóksíðuna sína á aðventu: „Að fá að fara með vinkonu minni í búð og kaupa jólakjólinn og með 14 ára syni mínum að kaupa jólaskyrtuna. Er það ekki bara venjulegt og sjálfsagt mál? Kannski finnst það sumum, en svo er alls ekki og sérstaklega í ljósi þess að síðustu jól reiknaði ég ekki með því að fara aftur í jólainnkaup.“.

Svo bætir vinkona mín við og segir: „Það er alveg hreint sérstök tilfinning að kunna að meta hvert einasta augnablik lífsins, fyllast fögnuði og þakklæti mörgum sinnum á dag“. Hér mælir kona af lífsins reynslu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.