Séra Jóhanna: Jólin mega ekki vera flótti frá raunveruleikanum

johanna_sigmarsdottir.jpgEitt er að þekkja söguna af fæðingu Jesú Krists og annað að leyfa henni að hafa áhrif á sig og láta hana móta líf sitt. Jólin mega ekki verða flótti frá raunveruleikanum um stundarsakir.

 

Þetta kom fram í jólapredíkun séra Jóhönnu Sigmarsdóttur, prófasts í Múlaprófastsdæmi. „Jólin geta líka auðveldlega orðið flótti frá raunveruleikanum. Fólk flýr inn í hið óræða, sem við köllum„jólastemmingu”, leitast við að gera vistlegt og hlúa að öryggi heimilisins, ef tími skyldi nú gefast til að kyrra hugann og gleyma hversdagsleikanum um stund.

Ef jólin eru bara raunveruleikaflótti þá missa þau tengslin við lífið í heild, þá verða þau okkur óhjákvæmilega vonbrigði, og þegar hversdagslífið tekur við aftur finnum við fyrir meiri tómleika en nokkru sinni fyrr.“

Hún segir að í jólaguðspjallinu hafi verið horfst í augu við raunverulegar aðstæður þar sem mikil fátækt ríkti. Hirðarnir hafi verið óvanir bæði andlegri og veraldlegri dýrð en ákveðið að treysta því sem þeim var boðað og fengið að sjá dýrð Guðs.

„Þannig vill Guð vísa okkur leið, í lífi okkar, í gráum hversdagsleikanum. Vegna jólanna getum við einmitt skynjað, að við erum ekki lengur ein með áhyggjur okkar og sorgir. Jesús þekkir þær því hann varð maður.

Jólin flytja boðskap í dimmum heimi um nýja fullvissu, nýja sannfæringu. Jólin flytja okkur eins og hirðunum nýjan fögnuð sem veitir þrótt í daglegu lífi. Jólin eiga erindi til okkar með nýja von, án vonar getur enginn maður lifað.“

Mynd: Kirkjan.is/Árni Svanur Daníelsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar