Steinasafn Petru gott mótvægi við Reðursafnið

Steinasafn Petru á Stöðvarfirði og Franska safnið á Fáskrúðsfirði eru fulltrúar Austurlands í bók um íslensk söfn sem fengið hefur framúrskarandi gagnrýni í erlendum fjölmiðlum. Höfundurinn segir að fræðast um hvernig samfélagið tekur undir söfnunaráráttu einstaklinga.

„Mér fannst mig vanta mótvægi við Reðursafnið. Það er alþjóðlega þekkt en það safn sem flestir Íslendingar bentu mér á var Steinasafn Petru. Það er líka kvenlegt safn um konuna sem fór út að safna steinum frekar en vera heima við eldavélina,“ segir bandaríski rithöfundurinn A. Kendra Greene um val sitt á Steinasafninu í bókinni „The Muesum of Whales You Will Never See – Travels among the Collectors of Iceland“ eða „Hvalasafnið sem þú munt aldrei sjá – Ferðir meðal íslenskra safnara.“

Bókin hefur komist í úrvalshópa hjá dagblöðum á borð við New York Times og The Guardian auk þess sem hún hefur verið þýdd á bæði þýsku og frönsku. Kendra heimsótti Austurland í sumar og kynnti bókina meðal annars með fyrirlestri á Seyðisfirði.

Kendra fékk upphaflega námsstyrk til að ferðast til Íslands árið 2011. Vera Hins íslenska reðursafns á lista yfir furðulegustu söfn heims dró hana hingað. Hún hafi ekki gert neinar væntingar til safnsins en það hafi komið henni á óvart.

„Ég áttaði mig á að textarnir þar væru á sjö tungumálum, þar með talið esperanto. Ég hélt áfram og fór að hugsa um hvað það væri í rauninni hefðbundið, það byggði eins og mörg söfn á einstaklingi sem byrjar að safna. Við sjáum það aftur og aftur. Eins og einhver virðist byrja að safna af slysni, svo spyrst það út í nágrenninu þannig íbúarnir fara að taka með sér gesti, svo koma skólahópar og það er fjallað um það í staðarblaðinu.“

Síðan hefur Kendra komið átta sinnum til landsins enda nóg að skoða í landi sem hefur yfir 300 söfn. „Mörg byggðasöfn eru áþekk, með munum frá 50 mismunandi bóndabæjum en svo eru líka mjög sérhæfð söfn sem segja sögu sem er einstök fyrir Ísland, jafnvel heiminn. Mér fannst sérstakt að saga franskra sjómanna væri varðveitt á þessum stað en hún er líka einstök. Veiðarnar við Ísland voru taldar svo hættulegar að konur sem giftust sjómönnum sem voru á leið þangað voru kallaðar „ekkjur Íslands“,“ segir hún um Franska safnið.

Hún heimsótti einnig fleiri söfn eystra þótt þau komi ekki fyrir í bókinni. „Stríðsárasafnið á Reyðarfirði fjallar um mikilvægan kafla í sögu Íslands. Sjóminja- og smiðjusafn Jósafats Hinrikssonar í Neskaupstað var með merka gripi og sagt frá músum í skápnum. Tækniminjasafnið á Seyðisfirði hafði sögu að segja og ég held hún hafi bara orðið áhugaverðari síðan. Það fæst nú við spurningar um hvernig eða hvort hægt sé að færa safn aftur í fyrra horf. Hvernig skráseturðu sögu safns? Mér finnst áhugavert að velta því hvenær safn fari að verða safn um sjálft sig.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.