Stjórn AFLs segir stjórnvöldum hafa mistekist að skapa sátt
Stjórn AFLs Starfsgreinafélags segir stjórnvöldum hafa mistekist að skapa sátt í samfélaginu um viðbrögð og aðgerðir í kjölfar bankahrunsins.
Þetta kemur fram í ályktun sem stjórnin sendi frá sér í gærkvöldi.
Þar kemur kemur fram að stjórnin harmi þá upplausn sem orðin sé í yfirstjórn landsins. „Þeir stjórnmálamenn sem fara í forystu stjórnmálaflokka landsins hafa algerlega brugðist þeirri skyldu sinni að leiða þjóðina upp úr efnahagskreppu og skapa sátt um nauðsynlegar aðgerðir.
Stjórn AFLs telur að stjórnvöld hafi frá hruni bankakerfisins í október 2008 brugðist því hlutverki að skapa sátt í samfélaginu um viðbrögð og aðgerðir. Almenningur upplifir vaxandi óréttlæti og að þeir sem stefndu þjóðfélaginu í óefni njóta enn eigna sinna á meðan þúsundir heimila almenns launafólks glíma við alvarlega greiðsluerfiðleika og eignaupptöku.
AFL Starfsgreinafélag varar við því að ef ekki tekst að ná einhverri sátt í samfélaginu munu átök m.a. á vinnumarkaði eiga eftir að harðna til muna á næstu misserum. Ennfremur lýsir félagið áhyggjum sínum af því að viðvarandi óvissa í efnahagsmálum stefnir grunnstoðum velferðarkerfisins í voða og að ef ekki tekst að halda áfram efnahagsáætlun stefnir í annað og ekki minna áfall en við glímum við nú þegar. „
Stjórnin telur einnig rétt að Icesave-lögin fari í þjóðaratkvæðagreiðslan þar sem það sé eina raunhæfa leiðin úr þeirri pattstöðu sem málið er komið í.