Stækkun þjóðgarðs og skóflustunga að gestastofu

Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra tók fyrstu skóflustunguna að Gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Skriðuklaustri í dag og undirritaði við það tækifæri reglugerð um stækkun þjóðgarðsins til norðurs. Verður þá Trölladyngja í heild, Askja og stór hluti Ódáðahrauns hluti af þjóðgarðinum.

vatnajk_khgestastofa_vefur.jpg

Í Gestastofunni á Skriðuklaustri verður sett upp kynning á þjóðgarðinum og þar verður hægt að nálgast allar upplýsingar um þjóðgarðinn og nágrenni hans, gönguleiðir, náttúrufar, sögu, þjónustu og afþreyingu. Ljúka á byggingu gestastofunnar fyrir 15. maí 2010. Gestastofur verða meginstarfsstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs og þaðan verður landvörslu og daglegum rekstri hvers rekstrarsvæðis þjóðgarðsins stjórnað. Gestastofan á Skriðuklaustri verður fyrsta byggingin hér á landi sem verður byggð samkvæmt vottuðum vistvænum byggingarstöðlum.

 

Í ferðinni þáði umhverfisráðherra einnig heimboð Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Sambandið sendi umhverfisráðherra heimboð í febrúar síðastliðnum og óskaði eftir að fá að kynna fyrir henni þau áhrif sem stóriðja hefur haft á landsfjórðunginn. Umhverfisráðherra snæddi hádegisverð í Ráðhúsinu Reyðarfirði með Helgu Jónsdóttur bæjarstýru, Guðmundi R. Gíslasyni, forseta bæjarstjórnar og Smára Geirssyni, formanni Fjarðabyggðarhafna. Umhverfisráðherra fór síðan í skoðunarferð um Reyðarfjörð og nærsvæði og heimsótti m.a. ábúendur á Sléttu sem hafa alið hreindýrskálf frá því í fyrravor. Þá spjallaði umhverfisráðherra við þau Jónínu Rós Guðmundsdóttur, formann bæjarráðs Fljótsdalshéraðs og Óðinn G. Óðinsson, verkefnis og þróunarstjóra, yfir kaffibolla á Hótel Héraði. Að því loknu hélt umhverfisráðherra að Skriðuklaustri þar sem hún tók skóflustungu að Gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs og undirritaði reglugerð um stækkun þjóðgarðsins.

  vatnaj_kortvatnaj_vefur.jpg

Heimasíða Vatnajökulsþjóðgarðs: www.vatnajokulsthjodgardur.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar