Stöð í Stöð hófst í gær
Stöð í Stöð er hafin á Stöðvarfirði. Fjölskylduhátíðin hófst með pompi og prakt fimmtudagskvöldið 6. júlí með bubblubolta fyrir unga sem aldna. Framundan er fjölbreytt dagskrá, Pallaball í kvöld og fjölskyldudagskrá á morgun, laugardag.
Í gær hófst bæjarhátíðin Stöð í Stöð með Íslandsmóti í bubblubolta, yngsta kynslóðin fékk aðeins að spreyta sig á boltunum áður en flautað var til móts. Sjö lið voru skipuð og kepptust um titilinn. Einn af skipuleggjendum hátíðarinnar, Bjarni, sagði mikið stuð hafa verið á svæðinu og töluvert af fólki.
Bæjarhátíðin Stöð í Stöð var fyrst haldin 1996 á 100 ára verslunarafmæli Stöðvarfjarðar og svo aftur 2006 við 100 ára afmæli Stöðvarhrepps „Svo var það ekki aftur fyrr en 2016 sem við endurvöktum þetta og hefur verið haldið annað hvert ár síðan. Þetta er því 4 skiptið sem við höldum þetta.“ Bjarni er einn af 10 manna kjarna sem kemur að skipulagi hátíðarinnar annað hvert ár.
Í dag stendur til að mála göngubrautina yfr Hólaland í regnbogalitum til að vekja athygli á baráttu hinsegin fólks. Að því standa Hinsegin Austurlands, Fjarðabyggð, bæjarhátíð og Sterkur Stöðvarfjörður.
Í kvöld verður öllu tjaldað til þegar Páll Óskar mætir og heldur eitt af sínum víðfrægu og sívinsælu Pallaböllum. „Fyrsta árið fengum við Buff, annað árið Stuðlabandið en nú er Palli að koma í annað skiptið.“ Ekki er víst að ballið verði alveg eins fjölmennt og fyrir tveimur árum „síðast var þetta náttúrlega fyrsta ballið eftir að samkomutakmörkum lauk svo það mættu bara allir!“ en þó er búist við margmenni, miklu stuði, glysi og glimmeri eða eins og Bjarni segir „glimmersprengjurnar eru tilbúnar nú bíðum við bara eftir Palla.“
Það verður ekki bara dansað í kvöld því það verður nóg af mat og drykk vildi Bjarni bæta við. „Fornleifafélagið verður að selja hamborgara fyrir utan og verða líka með einhverja glaðninga fyrir þá sem styrkja félagið.“
Laugardagurinn hefst síðan með jógagöngu fyrir alla fjölskylduna. Eftir gönguna verður svokallað Sparifatasund sem er sjósund inni í botni fjarðar og fólk hvatt til að koma í sparifötunum. „Margir hafa bara komið með gömul spariföt sem mega fara í sjóinn, skyrtur eða álíka.“
Hátíðardagskrá fyrir alla fjölskylduna verður milli 13 og 16 með hoppuköstulum, austfirsku tónlistarfóki og Vísinda Villa svo fátt eitt sé nefnt. Að hátíðardagskrá lokinni kemur slökkviliðið og sprautar froðu á sérstaka froðubraut sem í boði verður að renna sér niður.
Að kvöldi laugardags verður boðið upp á Bar svar og tónleika með Stebba Jak svo það má segja að fjölbreytt dagskrá sé í vændum hjá gestum Stöðvarfjarðar um helgina.