Stólaskipti Sigurðar í Sinfóníuhljómsveitinni

Eini einstaklingurinn sem Austurland getur státað sig af í Sinfóníuhljómsveit Íslands ákvað fyrir nokkru að gefa eftir sæti sitt sem fyrsti básúnuleikari hljómsveitarinnar. Hans eigin nemandi fékk það sæti í kjölfarið.

Hér er um að ræða básúnuleikarann Sigurð Svein Þorbergsson sem rekur ættir til Neskaupstaðar en hann hefur um langa hríð verið einn allra fremsti básúnuleikari landsins og þó víðar væri leitað og gert marga góða hluti með sinni hljómsveit.

Aðspurður segist Sigurður ekkert vera á þeim buxunum að hætta eða minnka við sig enda breyti í sjálfu sér ekki miklu að hafa sætisskipti úr fyrstu básúnu í aðra básúnu þar sem hann spilar eftirleiðis.

„Ég verð þarna áfram enda þarf einhver Austfirðingur að standa vaktina. Ég hef verið sá eini þaðan allar götur síðan Lárus Sveinsson féll frá. Það sem gerðist var að það losnaði staða í sveitinni þannig að ég gat fært mig niður úr því að vera á fyrstu básúni og niður í aðra.“

Sigurður hefur í og með starfi sínu með Sinfóníuhljómsveitinni gegnum tíðina sinnt kennslu líka og svo merkilega vildi til að það var einmitt einn skjólstæðingur hans sem sóttu um stöðu fyrsta básúnuleikara og fékk þó viðkomandi sé enn fræðilega á svokölluðum prufutíma.

„Það er rétt. Hann Jón Arnar Einarsson var nemandi hjá mér í mörg ár áður en hann hélt svo erlendis til frekara náms og lauk því námi í vor og sótti um í hljómsveitinni í kjölfarið. Það verður að segjast að hann er reyndar enn á prufutíma en mér sýnist ekki margar hindranir í vegi fyrir að hann hljóti starfið fyrr en síðar. Prufur eru tvenns konar. Annars vegna tveggja til þriggja vikna reynslutími þar sem viðkomandi spilar bara einn og eftir það sex mánaðir í viðbót áður en hann prófar sig með öðrum í sveitinni. Hugmyndin með þessu fyrirkomulagi það að jafnvel þó einhver sé frábær tónlistarmaður þá þarf viðkomandi einnig að pluma sig í stórum hóp annars tónlistarfólks sem er ekki alltaf gefið. Menn verða að passa inn í deildina.“

Sigurður á sviði með hljóðfæri sitt fyrir nokkru. Mynd aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.