Stór hluti þekktra völvuleiða Íslands á Austurlandi

Séra Sigurður Ægisson, fyrrum sóknarprestur á Djúpavogi, hefur í hartnær fjörutíu ár viðað að sér heimildum um völvur á Íslandi og gaf rannsóknir sínar út í bókinni Völvur á Íslandi í lok síðasta árs. Hann telur íslensku völvurnar hafa haft á sér jákvæða ímynd og hún hafi varðveist lengur á Austurlandi en annars staðar sem útskýri hví í fjórðungnum séu á þriðja tug þekktra völvuleiða.

„Eftir háskóla varð ég prestur á Djúpavogi og þegar ég var að messa á stöðunum þar í kring barst í tal að þar væru völvuleiði. Ég fór að lesa mér til um prestakallið og gat í framhaldi spurst frekar fyrir um þau, þar á meðal völvuleiðið að Flugustöðum í Álftafirði sem er friðlýst.

Það sem kveikti sérstaklega áhuga minn voru völvuleiðin að Vík í Lóni. Þau eru þar þrjú hlið við hlið. Túnið í kring er rennislétt en leiðin standa upp úr. Ég fór að velta fyrir mér af hverju þau hefðu ekki verið sléttuð. Það sýndi að leiðin skiptu máli. Ég fór líka að velta fyrir mér af hverju haldið væri utan um völvuleiðin í kristnu landi,“ segir Sigurður um uppruna áhuga síns á völvunum.

Völvur gerðu gott og nutu virðingar


Völvurnar voru norrænar konur, sem sáu hluti eða höfðu mátt til lækninga eða slíkra framandi athafna. Annars staðar kunna þær að vera kenndar við illan mátt, svartagaldur, en viðhorfið virðist hafa verið annað hérlendis.

Sigurður telur það helgast af tvennu. Annars vegar hafi íslensku völvurnar verið búandi, það er haldið heimili á einum stað í stað þess að flakka á milli staða og þiggja laun fyrir gáfur sínar eins og víða erlendis. Hins vegar hafi þær stundað hvítagaldur, það er nýtt gáfur sínar til góðs. Að geta spáð fyrir um veður og árferði hafi verið mikilvæg gáfa í harðbýlu landi.

Þessi jákvæða ímynd hafi síðan haldist en þróast. Öfugt við Evrópu þá hafi aðallega karlar verið brenndir fyrir galdra hérlendis. Það skýri einnig hvers vegna mikið sé af völvuleiðum á Austurlandi, þar sem galdrabrennurnar voru fæstar, en finnist ekki á Vestfjörðum eða Norðurlandi vestra, þar sem galdrafárið var verst. Af 70 völvuleiðum í bók Sigurðar eru 24 á Austurlandi.

Völvurnar sem vernda Reyðarfjörð


Síðar meir voru völvurnar taldar veita vernd. Þeirra á meðal er völvan sem grafin er á Hólmahálsi. Um hana eru sagnir um að hún hafi kallað fram mikið hvassviðri og hrundið áformum sjóræningja frá Algeirsborg (Tyrkja) um að ræna fólki úr Reyðarfirði, og löngu síðar átt hlut í því að þýsk flugvél fórst vorið 1941 er hún flaug á klettavegg skammt ofan Valahjalla, sem stundum er nefndur Völvuhjalli, í fjallinu Snæfugli.

„Við höfum sögur víðar um að völvurnar hafi sagt á meðan þær lifðu að hver sá sem myndi hlaða upp leið þeirra hlyti happ í staðinn. Ein frægasta sagan er frá Kálfafellsstað í Suðursveit. Þar var prestssetrið að hruni komið og presturinn var búinn að safna að sér mönnum með hesta til að ríða austur á Djúpavog til að sækja timbur í nýtt hús. Þá kemur maður aðvífandi sem segir að á fjöru prestjarðarinnar sé rekið mikið tré. Þá var hætt við ferðina á Djúpavog en tréð sagað niður og nýtt hús byggt. Skömmu áður hafði presturinn látið hlaða upp leiðið.“

Var fjallkonan á Vestdalsheiði völva?


Sigurður bendir einnig á að fyrir um 30 árum hafi norrænir fornleifafræðingar fyrstir sett fram þá kenningu að járnfleinar sem fundist hafa í kumlum kvenna, sem fram til þess höfðu verið taldir mælistikur eða steikarpinnar eða eitthvað í þá veruna, hafi í raun í sumum tilvikum verið völvustafir. Þess vegna sé það svo að ef ríkmannleg kvenkuml, með ákveðnum hlutum, finnist kunni það að hafa verið völvur.

Sigurður segir fjallkonuna, sem fannst á Vestdalsheiði sumarið 2004, passa við þá lýsingu. „Það er ekkert völvuleiði í Seyðisfirði eða Loðmundarfirði en hins vegar allt þar í kring. Mögulega hefur hún ætlað að sitja úti og leita frétta en svo hefur eitthvað gerst.“

Hann segir að á Norðurlöndunum hafi fundist allmörg kuml sem talin séu völvuleiði en bætir við að ekkert þeirra hafi beinlínis verið kallað völvuleiði eða grunur verið um eitthvað slíkt. Það hafi bara komið í ljós síðar. Íslendingar hafi því sérstöðu með öll sín skráðu völvuleiði.

Verðskulda að minningunni sé haldið á lofti


Sigurður hefur þá trú að völvurnar hafi verið mikils metnar í lifanda lífi og notið mikillar virðingar. Vísbendingar séu um að þannig hafi það haldist, leynt eða ljóst, lengi. „Heimildir eru um að fermingarbörn á leið frá Eskifirði að Hólmum í Reyðarfirði í fermingarfræðslu hafi í lok 19. aldar látið eitthvað í holu sem var þar við leiðið, sem fórn eða þökk, þegar þau fóru þar hjá. Og eins að eldra fólk geri sér enn leið upp til hennar til að leita ásjár hennar,“ segir hann.

En farið er að fenna yfir sögurnar, hefðirnar og sjálf leiðin í einhverjum tilvikum. „Leiðunum er víða ekki haldið við enda enginn til að gera það þegar dregur úr búsetu í sveitum. Ég vona að bókin mín verði til þess að ýta við þeim aðilum sem sjá um minjavernd, að merkja leiðin og vernda þau. Ég held það geti líka verið tækifæri fyrir ferðaþjónustuna að skipuleggja ferðir á milli sögustaða. En allt slíkt þarf auðvitað að gera af mikilli nærfærni við þessa merkilegu sögu og konurnar, sem henni tengjast.

Því það er mjög dýrmætt að geta haldið á lofti minningu þessara fornu sjáenda sem eiga allt gott skilið.“

Hvar eru völvuleiði á Austurlandi?


Ánastöðum, Breiðdal
Bakkagerði, Borgarfirði
Berunesi, Reyðarfirði
Breiðdalsheiði
Böðvarsdal, Vopnafirði
Eyvindarstöðum, Vopnafirði
Fannardal, Norðfirði
Flugustöðum, Álftafirði
Geithellum, Álftafirði
Grænanesi, Norðfirði
Hamri, Hamarsfirði
Hjarðarhaga, Jökuldal
Hólmahálsi, Reyðarfirði
Hvalneshálsi
Kirkjubæ, Hróarstungu
Kjólsvík, Borgarfirði
Litluvík, Borgarfirði
Papey
Refsmýri, Fellum
Reykjum, Mjóafirði
Seljateig, Reyðarfirði
Stuðlum, Norðfirði
Vífilsstöðum, Hróarstungu
Tungufelli/Þorvaldsstöðum, Breiðdal

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar