Stórafmælishátíð Egilsstaðakirkju afrakstur margra yfir langt tímabil

Stór hópur fólks hefur unnið sleitulítið að því síðan í haust að undirbúa hálfrar aldar afmæli Egilsstaðakirkju sem verður formlega haldið þann 16. júní næstkomandi með viðamikilli hátíðarguðþjónustu. Afmælisveislan byrjar þó óformlega strax á laugardaginn kemur í Sláturhúsi bæjarins.

Það er nefninlega í menningarhúsinu Sláturhúsinu þar sem opnar á laugardag klukkan 13 sýning sem kallast Sæl eru þau sem búa í húsi þínu. Sú sýning, að sögn séra Kristínar Þórunnar Tómasdóttur, skal veita gestum innsýn í þá djúpu persónulegu tengingu sem landinn hefur haft og mun hafa áfram við kirkjulegar athafnir á stórum stundum lífsins.

Skírn, ferming, lífið og dauðinn

„Sýningin samanstendur af ýmsum munum kirkjunnar sjálfrar en ekki síður gefur þar á að líta fjölda persónulegra muna fólks á svæðinu frá ýmsum mismunandi athöfnum í kirkjunni gengum tíðina. Við óskuðum í vetur eftir að fólk léti okkur í té fatnað eða annað sem tengdist þeirra upplifun af kirkjulegum athöfnum og viðbrögðum voru svo mikið að við þurftum eiginlega að skera niður þann fjölda sem okkur barst í kjölfarið. Okkur barst mikill fjöldi fatnaðar á borð við skírnarkjóla, fermingar- og brúðkaupsfatnaðar en á sýningunni ber ýmislegt annað fyrir augu af hlutum sem Egilsstaðakirkju hefur áskotnast eða fengið að gjöf gegnum tíðina. Hvet ég alla til að reka inn nefið á neðri hæð Sláturhússins á sunnudaginn kemur en hún verður opin áfram á opnunartíma hússins fram að sjálfri afmælisveislunni.“

Sýningunni er ætlað að sýna virði og mikilvægi sóknarkirkjunnar á stórum stundum lífs fjölmargra Íslendinga og ýmsu því framlagi kirkjunnar og velunnara hennar til nærsamfélagsins sem alla jafna fær litla umfjöllun.

Kristín Þórunn segir að mun fleiri viðburðir í tengslum við þetta stórafmæli séu fyrirhugaðir langt fram eftir árinu sem verði auglýstir síðar. Þar á meðal sérstök barnahátið, stórtónleikar með listamönnum af Héraði og síðast en ekki síst málþing um Austurlandsskáld á sautjándu öld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar