„Stórkostlegt að sigla á fullri ferð og heyra ekkert nema gjálfrið í öldunum“
Albert Geirsson og Sigríður Júlíusdóttir sigldu í byrjun maí heim til Stöðvarfjarðar frá Englandi á seglskútu sem þau höfðu keypt nokkru áður. Þau hrifust af eyjunum við vesturströnd Skotlands, sem þau sigldu fram hjá á leiðinni.Skútan heitir Just Joia, er 60 fet eða 18 metrar á lengd og mastur hennar rís á þriðja tug metra upp frá sjólínu. Þetta er önnur skútan sem Albert kaupir. Árið 2020 keypti hann 11 metra skútu sem bar nafnið Stjarna.
„Ég var staddur norður í Mývatnssveit, ásamt fleira fólki, hjá móður minni. Þar birtist auglýsing um skútu. Ég hafði oft látið mig dreyma um að sigla á skútu en var búinn að afskrifa það sökum aldurs. Ég fíflaðist með auglýsinguna, sagði fólkinu að þetta væri skútan sem ég ætlaði að kaupa. Innan við tveimur vikum seinna hafði ég eignast hana,“ segir Albert.
Hann sigldi henni frá Reykjavík austur til Stöðvarfjarðar ásamt syni þeirra hjóna, Júlíusi og Ingvari Björnssyni, formanni Siglingaklúbbs Austurlands. Ingvar var reynsluboltinn í ferðinni og stýrði ferðinni.
„Ég hafði aldrei siglt á segli áður. Þegar við vorum komnir aðeins út á Faxaflóann drápum við á vélinni. Mér fannst skrýtið og ánægjulegt að sigla á fleygiferð en heyra ekkert nema öldugjálfrið,“ segir Albert.
Albert og Sigríður æfðu sig á Stjörnu á síðustu árum og fóru meðal annars bæði til Færeyja og Ísafjarðar, þar sem hún er uppalin. Það er kannski sérstakt, en í sjómílum talið er styttra frá Stöðvarfirði til Þórshafnar í Færeyjum heldur en bæði Ísafjarðar og Reykjavíkur.
„Við vorum um 42 tíma til Klakksvíkur. Siglingin þangað er um fjórum tímum styttri en til Þórshafnar. Við lögðum að á báðum stöðum, tókum bílaleigubíla og skoðuðum eyjarnar,“ segja þau.
Heilluð af skosku eyjunum
Þau voru ánægð með Stjörnu en langaði í stærri og þyngri bát sem væri stöðugri þannig að betur færi um fólkið um borð og það gæti þar með ferðast lengra. Þar kom Just Joia upp í hendurnar á þeim. Hún var staðsett í suðurhluta Englands þangað sem fjölskyldan sótti hana í vor. Siglt var frá Lymington síðdegis 30. apríl til vesturs.
„Við sigldum suður fyrir Cornwall. Við fengum gott veður þar og það var gaman að horfa til lands. Þar við hornið hittum við höfrunga sem léku sér við bátinn, stukku og ærsluðust. Síðan fórum við meðfram vesturströnd Englands um Írlandshaf. Alls staðar meðfram ströndinni eru vitar og hús fyrir vitavörðinn þar hjá, jafnvel á klettum eins og South Bishop. Fyrsta stoppið okkar var í Oban í Vestur-Skotlandi. Þá vorum við tæplega hálfnuð, höfðum siglt 622 sjómílur á 3,5 dögum,“ segir Sigríður.
Þaðan var haldið áfram upp með vesturströnd Skotlands. „Upphaflega hugmyndin mín var að sigla upp með austurströnd Bretlands og koma við á Hjaltlandseyjum. Þegar við skoðuðum málið var okkur ráðlagt að fara frekar vestur fyrir, það væri að öllu leyti betra, meira að sjá, styttra á milli hafna og skjól fyrir úthafsöldunni. Við fórum að kynna okkur svæðið undan vestur-Skotlandi og heilluðumst að því. Þarna er fjöldi eyja sem maður hefur varla heyrt af. Þetta er nágranni okkar sem við vitum ekkert um,“ segir Albert.
„Við fórum í land á þremur stöðum en sigldum fram hjá enn fleiri áhugaverðum. Við fórum um þröng sund þar sem við vorum með eyju á aðra hönd og meginland Skotlands á hina. Þar sem við fórum ekki hratt yfir var gott að njóta útsýnisins á bæði borð. Maður hugsar um Skotland sem land en ekki eyjar, en þarna eru margar eyjar og búið á flestum þannig að svæðið minnir um margt á Færeyjar. Þarna eru falleg þorp og síðan kastalar, sem við Íslendingar erum óvanir. Þarna eru víkur og vogar þar sem leggjast má við akkeri. Svæðið er áhugavert og við erum eiginlega ákveðin í að fara þangað aftur síðar,“ bætir Sigríður við.
Austfirðir sem skútusvæði
Þau segja aðstöðuna þar góða og hafa byggst upp síðustu ár. Á Austfjörðum eru hins vegar aðeins tvær skútur að staðaldri, Just Joia og Stjarna sem Ingvar keypti ásamt félaga sínum og er nú í Norðfjarðarhöfn. Þau vonast til að frekari skútumenning byggist upp á svæðinu en til þess þarf betri aðstöðu.
„Til að hægt sé að leggja svona bát þarf flotbryggju og nægt dýpi. Flotbryggjurnar eru yfirleitt hannaðar fyrir trillur. Skúturnar þurfa 2-3 metra dýpi, okkar ristir tæpa 3. Eins þarf að vera nægt rými við bryggjurnar þannig að hægt sé að treysta á að fá pláss. Við höfum séð skútur koma hér inn á Stöðvarfjörð, sigla hring í firðinum og svo út aftur því þær sjá ekki möguleika á að leggja að hér.
Ég held að það sé nauðsynlegt að hafnaryfirvöld á hverjum stað fari að huga meira að aðstöðu fyrir skútur og skemmtibáta, því þetta er ferðamáti sem sífellt fleiri kjósa. Við vorum með kort af svæðinu við Vestur-Skotland og inn á það var merktur fjöldi hafna þar sem hægt var að leggja að. Ef við skoðum til dæmis Fjarðabyggð þá er góð aðstaða á Norðfirði en varla neitt annars staðar. Hér á Stöðvarfirði er pláss fyrir þennan eina bát með herkjum,“ segir Albert. „Það væri spennandi að gera Austfirði að skútusvæði því við erum það stutt frá Evrópu,“ segir Sigríður.
Frá Skotlandseyjum hélt hópurinn til Færeyja og þaðan áfram til Stöðvarfjarðar. Siglingin þaðan frá Lymington tók alls tíu daga. „Við vonumst til að geta siglt í nokkur ár í viðbót og munum halda því áfram á meðan heilsan leyfir. Vonandi fjölgar þeim sem hafa áhuga á siglingum hér fyrir austan, þannig að einhver félagsskapur verði í kringum sportið,“ segja Sigríður og Albert að lokum.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.