Óásættanleg mismunun dreifbýlis
Umhverfis- og héraðsnefnd Fljótsdalshéraðs telur óásættanlegt að snjór sé ekki mokaður af heimreiðum í dreifbýli. Þetta kallar nefndin „óásættanlegan mismun milli íbúa sveitarfélagsins“ og bendir á að skilvirkt samgöngukerfi sé forsenda búsetu í dreifbýli.
Nefndin leggur til að heimreiðarnar verði settar í sama flokk og íbúðargötur, sem kallaðar eru grænar götur, í þéttbýli. Ekki er byrjað að hreinsa þær fyrr en eftir klukkan átta á morgnana, að því er fram kemur á vef sveitarfélagsins.
Þar segir enn fremur: „Þegar unnið er að hreinsun í íbúðagötum er verktaka ekki heimilt að ryðja fyrir heimkeyrslur húsa. Þau tilfelli geta samt komið upp að ekki sé hreinsað frá innkeyrslum fyrr en 1-2 tímum eftir að hreinsun götu er lokið. Það er vegna þess að sú vinna er tímafrek og þá kemur tæki á eftir hefli og hreinsar frá innkeyrslum.“