Stuðningsklúbbur Kjartans Braga starfræktur algjörlega án hans samþykkis
Stuðningsmannaklúbbur hins nýbaka Útsvarsmeistara Kjartans Braga Valgeirssonar hefur vakið mikla athygli fyrir dyggan stuðning við sinn keppanda. Stuðningsmennirnir héldu uppi miklu fjöri á úrslitakeppninni í gærkvöldi með því að mæta í bolum með andlitsmynd af hetjunni.
„Þessi klúbbur er starfræktur af vinum Kjartans, algjörlega án hans samþykkis,“ segir Arnar Jóhannsson, forsprakki hópsins.
„Við viljum styðja vinn okkar í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur. Það sem æðislegt við Kjartan er hvað hann er fallega rauðhærður og fjallmyndarlegur drengur,“ segir Arnar aðspurður um hvatann að baki klúbbnum.
Hann hefur mætt á flesta Útsvarsþættina og yfirleitt einhver með honum. Hópurinn hefur síðan stækkað eftir því sem liðið hefur komist lengra.
Félagarnir létu vel í sér heyra þegar Kjartan var kynntur í gærkvöldi, skemmtu samáhorfendum sínum í auglýsingahléum og voru áberandi í salnum íklæddir litríkum bolum með mynd af goðinu.
„Inngönguskilyrðið er aðallega að vera tilbúinn að láta eins og fífl í sjónvarpssal,“ segir Arnar.
Bolirnir voru gerðir í takmörkuðu upplagi en hægt er að panta þá hjá Arnari. „Ég tek við pöntunum ef fólk vill láta sjá sig með Kjartaninn okkar framan á sér.“