Stýrishúsið er brú milli menningarheima
Tveir listviðburðir á Austurlandi um næstu helgi eru hluti af dagskrá Listahátíðar í Reykjavík. Í Kiosk 108 eða listaverkinu Stýrishús/Brú á Seyðisfirði verður dagskrá með neðanjarðarlistafólki úr ýmsum áttum. Skipstjórinn segir rýminu ætlað að vera brú milli ólíkra menningarheima.„Það er mikill heiður að fá að taka þátt í dagskrá Listahátíðar í Reykjavík, sérstaklega verandi hér á Seyðisfirði, utan hringsins. Það á vel við okkur að vera utan hans. Við erum með neðanjarðarlist í stormi en gefumst aldrei upp,“ segir Monika Fryčová.
Frá árinu 2020 hefur hún verið með stýrishús af gömlum bát. Listaverkið kallaðist upphaflega Stýrishús/Brú en hefur þróast yfir í menningarmiðstöðina Kiosk 108. „Þetta er í raun sjálfstætt listaverk sem hýsir sprotalist.
Skipsbrúin er brú milli allra, milli viðskipta og listar, milli heimafólks og aðkomufólks, milli mismunandi menningarheima. Stýrishúsið sjálft er miðpunkturinn en bæði í því og í kring verða ólíkir listamenn með sýningar, svo lítið eins og mismunandi þættir í leikverki.
Ég verð í brúnni með veitingar, sem er hluti af þessu. Frá því í fornöld hefur það tíðkast að njóta matar, drykkjar og listar í einu. Mitt framlag er hluti af allri dagskránni, ég er listamaður sem stýri listaskipinu“ segir Monika.
Listafólk úr ólíkum áttum
Þar verður dagskrá frá klukkan fjögur á laugardag. Upphaflega átti að vera dagskrá á föstudag en breyta varð til vegna óveðursins í vikunni. Bæði verða þar leikræn verk, myndlist og tónlist en meðal þeirra sem fram koma eru Þjóðverjarnir Matte Sturck og Mark Wehrmann með dauðarokksverk og Amy Knoles og Houman Purmehdi, listaprófessorar frá Los Angeles, með áslátt og persneska tónlist.
„Ég hef tekið þátt í listviðburðum víða um heim og er heppin að hafa öðlast mikil tengsl innan listaheimsins. Mér finnst gaman að leiða saman ólíkar listgreinar því ég hef gaman af fjölmörgum hlutum og vil því hafa allt litrófið.“
Kiosk 108 hefur verið rekið á stöðuleyfi frá ári til árs og ekki verið einhugur um staðsetningu þess. Í vikunni var það fært á nýjan stað frá Lónsleiru að Ferjuleiru, í nágrenni hafnar Norrænu. „Það var búið að semja um færslu en ég hélt að tíminn væri rýmri. Við urðum því að drífa í þessu á mánudag, áður en stormurinn skall á,“ segir hún.
„Ég fékk góða hjálp við þetta. Sigurbergur Sigurðsson var með mér eins og svo oft. Hann á hlut í þessu með mér, ég hefði átt erfitt með að stýra skipinu án hans,“ segir hún.
Kiosk 108 verður síðan opin í allt sumar með mismunandi listviðburðum. „Þetta er töfrastaður uppfullur af því óvænta,“ segir Monika, sem tvisvar áður hefur tekið þátt í Listahátíð í Reykjavík. „Fyrir tíu árum fór ég með saltfisk á mótorhjóli frá Seyðisfirði til Portúgal. Þar fékk ég sæta kartöflu í sem ég kom með til baka á listahátíðina.“
Rask í Sláturhúsinu
Hin sýningin kallast Rask og opnar í Sláturhúsinu á Egilsstöðum í dag. Þar leiða saman helsta sína Agnieszka Sosnowska ljósmyndari og Ingunn Snædal ljóðskáld. Ingunn er alin upp á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal en Agnieszka býr á Kleppjárnsstöðum í Hróarstungu.
Þær vinna saman með myndir og ljóð sem vitna til um þróun lands og eyðingu. Þær bregðast við list hvor annarrar og því sem þær skynja og upplifa í röskuðu og rofnu umhverfi en jarðvegsrof á Austurlandi er víða umtalsvert.
Sýning þeirra stendur út sumarið.
Mynd: Aðsend