Sumarið raunverulega komið þegar Fjóshornið opnar

Þeir eru til nokkrir á Egilsstöðum sem telja sumarið aldrei sannarlega komið fyrr en Fjóshornið á Egilsstaðabúinu hefur opnað dyr sínar fyrir gestum. Samkvæmt því hófst sumarið þann 1. júní.

Kaffihúsið Fjóshornið þarf vart að kynna Austfirðingum enda margir lagt leið sína þangað gegnum tíðina. Hjónin Eyrún Hrefna Helgadóttir og Baldur Gauti Gunnarsson reka þar sem fyrr kaffihús og sölu á afurðum smáframleiðenda í nágrenninu auk sinna eigin afurða. Á Egilsstaðabúi er sem fyrr framleitt skyr og jógurt og ostur en vörur frá Könglum, Sauðagulli, Lilju Kryddjurtum og Holti og heiðum eru jafnframt þar til sölu

Þetta sumarið segir Baldur Gauti að tekin hafa verið sú ákvörðun að þessu sinni að setja megináhersluna á afurðasöluna en leggja brauð og kökur til hliðar. Þó er enn vitaskuld hægt að fá kaffi eins og menn lystir og ekki var fyrr búið að opna dyrnar þegar Austurfrétt bar þar að en erlent ferðafólk var mætt á staðinn.

Opnunartíminn er einnig nokkuð breyttur frá því sem verið hefur. Í sumar verður aðeins opið þriðju-, miðviku- og fimmtudaga á milli klukkan 14 og 17.

Hjónakornin Baldur og Eyrún í blíðviðrinu á Egilsstöðum. Með þeim er hjálparkokkurinn Egill Ingi sem einnig leggur sitt af mörkum til hjálpar í rekstrinum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar