Sumartónleikaröð Bláu kirkjunnar hefst í dag
Í Bláu kirkjunni á Seyðisfirði verður mikið um að vera næstu vikurnar en sumartónleikaröð kirkjunnar, sem haldin hefur verið frá árinu 1998, hefst í dag.
Dagskráin í ár er fjölbreytt og margir áhugaverðir tónlistarmenn munu koma fram. Tónleikarnir fara fram á miðvikudagskvöldum í júlí og fyrsta miðvikudaginn í ágúst.
Það verða þau Vigdís Klara Aradóttir og Guido Baeumer sem hefja leik í kvöld en þau leika saman á alt-saxófóna og hafa gert í áraraðir. Á tónleikunum munu vera fluttir tveir flautudúettar og þrjú verk sem samin eru fyrir saxófóna.
Dagskráin næstu vikur lítur svona út:
14. júlí: Bandaríska blúshljómsveitin Dirty Cello mun flytja orkumikinn og frumlegan snúning á blústónlist.
21. júlí: Kristjana Stefánsdóttir ásamt hljómsveit mun flytja mörg af þekktustu dægurlögum Íslands í léttjözzuðum búningi.
28. júlí: Olga Vocal Ensemble er a cappella sönghópur sem mun flytja lög af fjölbreyttum toga.
4. ágúst: Norðfirska rokkhljómsveitin Coney Island Babies flytur úrval laga sinna.