„Sumir segja hagyrðingamótið skemmtilegasta kvöld sumarsins í Fjarðarborg“

Nóg verður um að vera í Fjarðarborg á Borgarfirði um helgina. Hið árlega hagyrðinamót verður á vísum stað, auk kótilettukvölds, tónleika og uppistands.

Dagskráin fer öll fram í Fjarðarborg og hefst í kvöld með kótilettukvöldi og hagyrðingamóti.

„Hagyrðingamótið hefur verið haldið á Borgarfirði um verslunarmannahelgi allt frá árinu 1995 og er það eini hlutinn sem enn lifir af gömlu bæjarhátíðnni Álfaborgarsjens. Það eru svo nokkur ár síðan við spyrtum kótilettukvöldinu við, enda kótilettur álíka þjóðlegar og ferskeytlan,“ segir Ásgrímur Ingi Arngrímsson, vert í Fjarðaborg.

Það er Gísli Einarsson sem stýrir hagyrðingamótinu að þessu sinni. Hagyrðingar kvöldsins verða þau Andrés Björnsson, Bjarki Karlsson, Ingunn Snædal, Kristjana Björnsdóttir og Stefán Bogi Sveinsson. „Góður stjórnandi er stór partur af þessu öllu saman. Hann verður að vera í skemmtilegri kantinum en óþarfi að hann láti ljós sitt sitt skína gegnum kveðskap. Við höfum fengið til okkar fjölmarga frábæra stjórnendur gegnum tíðina og er þetta ekki í fyrsta skipti sem Gísli er í því hlutverki,“ segir Ásgrímur Ingi.

Ásgrímur Ingi segir yrkisefnin yfirleitt nokkið opin en öll byggi þau á spurningum sem hagyrðingunum ber að svara. „Þeim gefst tækifæri til þess að nálgast málin úr óvæntri átt og segja sínar skoðanir. Svo má segja að þetta sé eina skipti ársins sem látið er sem hagyrðingarnir eigi að hafa vit á öllu. Ýmsum tilvistarspurningum hefur verið varpað fram gegnum tíðina, um tilgang lífsins, líf eftir dauðann og öllu því helsta sem brennur á fólki að vita. Svo erum við auðvitað með starfandi heimspeking í fyrirtækinu, Óttar Már Kárason, sem var í þriggja ára háskólanámi, bara til þess að læra að spyrja réttu spurninganna. Hann kemur með heimspekilegar spurningar sem kannski er ekki neitt rétt svar við en hagyrðingunum gefst kostur á að svara.“

Aðspurður hvort efnið sem til fellur á hagyrðingamótinu sé tekið saman svarar Ásgrímur Ingi því neitandi. „Við höfum ekki gert það nei. Þetta er svolítið eins og þorrablótin, efnið á við á þeim stað og þeim tíma. Sumt er reyndar alveg klassískt og ég kann nú einhverjar vísur sem fæðst hafa á þessum mótum og nota þær stundum þegar ég þarf að vera fyndinn. Það hefur reyndar hvarflað að mér að gera eitthvað með þetta, kannski það verði einhver hliðarafurð í framtíðinni.“

Gísli Einarsson opnar og lokar helginni

Á laugardagskvöldið stíga þeir Valdimar Guðmundsson og Örn Eldjárn á stokk og flytja sín uppáhalds lög. Gísli Einarsson lokar svo helginni með sýningu sína Ferðabók Gísla Einarssonar (en hvorki Eggerts né Bjarna).

„Við fengum Gísla til þess að nota ferðina en hann hefur slegið í gegn með sýninguna sína í Landnámssetrinu. Við höfðum fengið áskoranir um að fá hann til þess að gera þetta í leiðinni og það gekk upp,“ segir Ásgrímur Ingi. Í lýsingu segir að Gísli hafi undanfarinn aldarfjórðung ferðast fram og aftur um landið, hring eftir hring og aftur til baka og stúderað landshætti og líf landans með það að markmiði að taka upp þráðinn þar sem Eggert og Bjarni skildu við. „Þeir félagar felldu dóma yfir íslensku þjóðinni og fóru ekkert fögrum orðum um austfirðinga og ég er ekki viss um að það verði neitt skárra hjá Gísla,“ segir Ásgrímur Ingi og hlær.

Nágrönnunum þykir ekkert mál að renna á Borgarfjörð

Ásgrímur Ingi segir veðrið eigi að vera skaplegt um helgina og því vel fallið til ferðalaga. „Núna þegar vegurinn er orðinn frábær finnum við fyrir því að fólki úr nágrannabyggðum þykir ekki neitt mál að renna til okkar. Annars er það svo ljómandi gott við þessa hátíð að gestir þurfa ekki að veltast um úti í drullunni heldur getur bara haft það huggulegt í hlýjunni inni í Fjarðarborg,“ segir Ásgrímur Ingi sem er í óðaönn að undirbúa kvöldið.

„Ég þarf að verða mér út um einn einn dósaopnarann, það er helvítis álag á þeim á kótilettukvöldunum. Hvorki grænu baunirnar né rauðkálið er ræktað hér á Borgarfirði og því flutt inn í dósum. Eina sem hefur verið heimaræktað er rabbarbarinn í sultuna og gæti ég trúað að við þyrftum að sulta aðeins. Það eru í það minnsta 75 kíló af kótilettum í húsi og það verður að duga.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.