Sungið um stemminguna á Norðfirði í nýju Neistaflugslagi

Nýtt lag fyrir bæjarhátíðina Neistaflug er komið í loftið. Það er hluti af hátíðahöldum í tilefni 30 ára afmælis hátíðarinnar.

„Ég fékk þá flugu í höfuðið að gera lag fyrir afmælið. Við vildum leggja meira í þetta en vanalega. Þetta er óður til hátíðarinnar og sungið um stemminguna og upplifunina af því að vera hér í firðinum á Neistaflugi,“ segir María Bóel Guðmundsdóttir, sem stýrir hátíðinni í ár.

Hún samdi lagið í samvinnu við Guðjón Birgi Jóhannsson, sem stýrði upptökum og textann með Eyrúnu systur sinni. María Bóel syngur lagið sjálf.

Hefð er reyndar yfir Neistaflugslögum. Þau fylgdu hátíðinni fyrstu ár hennar og var þá jafnvel haldin samkeppni um þau. Hefðin lognaðist síðar út af. „Ég man eftir að Gunni og Felix gerðu Neistaflugstexta við lag þegar ég barn.“

Hátíðin hefst í kvöld með barsvari fótboltahlaðvarpsins, Steve Dagskrá, en annars stjórnandi þess Vilhjálmur Freyr Hallsson er tengdasonur Norðfjarðar og fyrrum leikmaður Boltafélags Norðfjarðar. María Bóel segir að dagskráin sé veglegri en oft áður í tilefni afmælisins.

„Á morgun eru mjög flottir tónleikar þar sem fram koma Una Torfa og Langi Seli og skuggarnir. Á föstudag er ball með Stuðlabandinu og á laugardag Nobbaraball, þar sem aðeins koma fram Norðfirðingar. Hápunkturinn er síðan alltaf á sunnudagskvöldinu þar sem stórir útitónleikar eru við fótboltavöllinn og endað á flugeldasýningu. Yfir helgina erum við fleiri og stærri helgi en venjulega.“

Neistaflug var fyrst haldið árið 1993 og var hluti af átaksverkefni til að kynna Neskaupstað og efla bæjarbraginn þar. Guðmundur R. Gíslason, faðir Maríu, var framkvæmdastjóri hátíðarinnar í byrjun. Reyndar er það svo að öll fjölskyldan hefur stýrt hátíðinni.

„Hann var fyrst, síðan var það BRJÁN en svo öðlaðist hátíðin eigið líf. Við komum inn í þetta þegar mamma varð framkvæmdastjóri, síðan tók Eyrún systir mín við og svo ég. Það hafa sem sagt allir úr kjarnafjölskyldunni okkar verið framkvæmdastjórar.“

Mynd: Þórarinn Hávarðsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.