Sveinn og Sigurjón heiðraðir hjá Rótarý
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 14. nóv 2022 11:04 • Uppfært 14. nóv 2022 11:15
Sveinn Jónsson og Sigurjón Bjarnason hlutu nýverið Paul Harris-viðurkenningu fyrir störf sín fyrir Rótarýhreyfinguna á Íslandi.
Viðurnenningin er nefnd eftir stofnanda hreyfingarinnar og er veitt einstaklingum sem hafa varið miklum tíma og/eða fjármunum til hreyfingarinnar og samfélagsverkefna hennar.
Sveinn var forseti klúbbsins á Héraði á síðasta starfsári, 2021-22. Klúbburinn tók þá að sér stórverkefni sem tengdust því að umdæmisstjóri Íslands, Ásdís Helga Bjarnadóttir, kom úr honum. Hún afhenti tvímenningunum viðurkenninguna.
Þannig hélt klúbburinn umdæmisþing á Hallormsstað og Stórtónleika Rótarý í Tónlistarmiðstöðinni á Eskifirði.
Sigurjón var gjaldkeri umdæmisins á sama tíma. Í það fer mikill tími auk þess sem hann var umdæmisstjóranum innan handar í samskiptum við Rotarý International og klúbba.
Í tilkynningu er Sveini og Sigurjón þökkuð óeigingjörn störf í þágu Rótarý á Íslandi, sem og öllu félagsfólki í Rótarýklúbbi Héraðsbúa fyrir framlag þeirra á síðasta ári fyrir hönd umdæmisins, enda hafi margir lagt á sig mikla vinnu í ýmsum verkefnum á þess vegum. Þá aðstoðuð félagar í Rótarýklúbbi Norðfjarðar einnig en þessir tveir klúbbar starfa á Austurlandi.
Rótarýhreyfingin var stofnuð í Chicago í Bandaríkjunum árið 1905. Hún er hreyfing fólks úr viðskipta- og atvinnulífi og opinberri þjónustu sem stendur fyrir friðar-, mannúðar- og menningarstarfi og stuðlar að sem bestu siðgæði í öllum starfsgreinum. Til marks um það er opinbert kjörorð alþjóðahreyfingarinnar: „Þjónusta ofar eigin hag“.
Félagar eru rúmlega 1,4 milljónir í öllum heimsálfum. Á Íslandi eru starfandi 31 rótarýklúbbur með um 1200 félaga. Í klúbbunum er lifandi starf og vikulegir eða hálfs mánaðarlegir fundir með fróðlegum fyrirlestrum og umræðu. Félagar eru á öllum aldri og kynjum. Forseti Rótarýklúbbs Héraðsbúa er Eyjólfur Jóhannsson.