Sveinn og Sigurjón heiðraðir hjá Rótarý

Sveinn Jónsson og Sigurjón Bjarnason hlutu nýverið Paul Harris-viðurkenningu fyrir störf sín fyrir Rótarýhreyfinguna á Íslandi.

Viðurnenningin er nefnd eftir stofnanda hreyfingarinnar og er veitt einstaklingum sem hafa varið miklum tíma og/eða fjármunum til hreyfingarinnar og samfélagsverkefna hennar.

Sveinn var forseti klúbbsins á Héraði á síðasta starfsári, 2021-22. Klúbburinn tók þá að sér stórverkefni sem tengdust því að umdæmisstjóri Íslands, Ásdís Helga Bjarnadóttir, kom úr honum. Hún afhenti tvímenningunum viðurkenninguna.

Þannig hélt klúbburinn umdæmisþing á Hallormsstað og Stórtónleika Rótarý í Tónlistarmiðstöðinni á Eskifirði.

Sigurjón var gjaldkeri umdæmisins á sama tíma. Í það fer mikill tími auk þess sem hann var umdæmisstjóranum innan handar í samskiptum við Rotarý International og klúbba.

Í tilkynningu er Sveini og Sigurjón þökkuð óeigingjörn störf í þágu Rótarý á Íslandi, sem og öllu félagsfólki í Rótarýklúbbi Héraðsbúa fyrir framlag þeirra á síðasta ári fyrir hönd umdæmisins, enda hafi margir lagt á sig mikla vinnu í ýmsum verkefnum á þess vegum. Þá aðstoðuð félagar í Rótarýklúbbi Norðfjarðar einnig en þessir tveir klúbbar starfa á Austurlandi.

Rótarýhreyfingin var stofnuð í Chicago í Bandaríkjunum árið 1905. Hún er hreyfing fólks úr viðskipta- og atvinnulífi og opinberri þjónustu sem stendur fyrir friðar-, mannúðar- og menningarstarfi og stuðlar að sem bestu siðgæði í öllum starfsgreinum. Til marks um það er opinbert kjörorð alþjóðahreyfingarinnar: „Þjónusta ofar eigin hag“.

Félagar eru rúmlega 1,4 milljónir í öllum heimsálfum. Á Íslandi eru starfandi 31 rótarýklúbbur með um 1200 félaga. Í klúbbunum er lifandi starf og vikulegir eða hálfs mánaðarlegir fundir með fróðlegum fyrirlestrum og umræðu. Félagar eru á öllum aldri og kynjum. Forseti Rótarýklúbbs Héraðsbúa er Eyjólfur Jóhannsson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.