Sviðslistahópurinn Hnoðri í norðri með opna sýningu í dag
Sviðslistahópurinn Hnoðri í norðri sýnir jólasöngleik, sérstaklega sniðinn að börnum á aldinum 6-10 ára, í grunnskólum í Múlaþingi þessa vikuna. Opin sýning verður síðan í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði í dag.Söngleikurinn, eða öróperan, kallast „Ævintýri á aðventu“ og er samið af Þórunni Guðmundsdóttur.
Í verkinu koma fyrir misindælar en mjög jólalegar persónur. Grýlu finnst góðu börnin verst, en vondu börnin best - á bragðið! Jólakötturinn vill helst bara vera heima í helli að spila á harmonikku og fá börnin flutt þangað með heimsendingarþjónustu.
Systurnar Solla (á bláum kjól) og Gunna (á nýju skónum) verða viðskilja í jólagjafaleiðangri - enda kann Solla hvorki að bíða né að hlýða, þó hún fari nú reyndar jafnan í einu og öllu eftir jólalögunum! Stúfur heitir í raun Sigurður (og dreymir um að eiga upphækkaðan jeppa).
Flytjendur í verkinu eru Jóna G. Kolbrúnardóttir sópransöngkona, Erla Dóra Vogler mezzósópran og Jón Þorsteinn Reynisson harmonikkuleikari. Leikstjóri og leikmyndahönnuður er Jenný Lára Arnórsdóttir og Rósa Ásgeirsdóttir er búningahönnuður. Einkum Erla Dóra er Austfirðingum að góðu kunn enda uppalin á Héraði og bæði sungið og leikið fyrir Austfirðinga í gegnum tíðina.
Opna sýningin hefst klukkan 18:00 í dag.