Syndir til styrktar Einstökum börnum

Eskfirðingurinn Sigurgeir Svanbergsson hyggst synda 12 km leið frá Kjalarnesi til Bryggjuhverfis í Reykjavík, næsta laugardag þann 29. ágúst, og safna safna áheitum til styrktar Einstökum börnum.

Sigurgeir, sem er framleiðslustarfsmaður hjá Alcoa Fjarðaál og einn eiganda Iceland Combat Arts, hugðist upprunalega synda frá Reyðarfirði til Eskifjarðar en á þessum tíma fyllast firðirnir af marglyttum og því ekki hægt að synda þá leið.

Hugmyndin spratt upp í kjölfar þess að Sigurgeir gat ekki farið að keppa á heimsmeistaramóti í bardagalistum í águst vegna covid. „Ég er pínu manískur og þurfti að finna mér eitthvað annað að gera,“ segir Sigurgeir og bætir við að hann hafi langað til að leggja góðu málefni lið í leiðinni.

Hinn 31 árs gamli ofurhugi segist sjálfur ekki vera sundmaður en hafa alltaf haft gaman af því að sulla í sjó og stöðuvötnum. Hann hafi gaman af því að ögra sjálfum sér með þessari erfiðu áskorun. Undanfarna daga hefur Sigurgeir meðal annars æft sund í Jökulsárlóni og Eskifirði.

Sigurgeir safnar áheitum fyrir Einstök börn, stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða sjaldgæf heilkenni. Félagið telur hátt í 500 fjölskyldur og treystir alfarið á styrki frá fyrirtækjum og einstaklingum.

Reiknað er með að Sigurgeir leggi af stað milli klukkan þrjú og fjögur um nóttina en áætlaður sundtími er 6-8 tímar. Bátur fylgir honum eftir til öryggis.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.