Sýnir heimildarmynd sína Japaninn um Ljósafell Loðnuvinnslunnar fyrir opnu húsi í Skrúð

Þó tæknilega hafi frumsýning á heimildarmynd Guðmundar Bergkvist, kvikmyndatökumanns, um 50 ára sögu Ljósafells Loðnuvinnslunnar farið fram fyrir luktum dyrum á afmælishátíð Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga í síðasta mánuði fer frumsýning myndarinnar fyrir opnu húsi fram í kvöld í Skrúð klukkan 20.

Það var fyrst fyrir tíu árum eða svo sem fyrst haft var samband við Guðmund Bergkvist, myndatökumann, um að gera Ljósafellinu skil með myndrænum hætti en það skip er í dag hið síðasta af svokölluðum Japanstogurum sem enn fiska við landið. Alls voru smíðuð tíu slík eins skip í Japan fyrir hálfri öld og voru fjögur þeirra gerð út frá Austurlandi í byrjun.

Guðmundur varð við þeirri beiðni þá og sú mynd undirstaða nýrrar heimildarmyndar um sögu þessa fengsæla skips sem frumsýnd var þann 15. september síðastliðinn.

„Það verður gaman að sýna myndina fyrir opnu húsi. Þó ekki sé nema vegna þess að í áhöfn skipsins gegnum tíðina hafa nú aldeilis verið fleiri en bara heimamenn á Fáskrúðsfirði. Hún er um 57 mínútur í heildina og það gekk nánast lygilega vel að safna og finna gögn og efni. Ég átti nokkuð efni fyrir frá því fyrir tíu árum síðan en í þetta sinn fór ég mun dýpra í heimildaleit og í ljós kom að ótrúlegur fjöldi mynda og gagna af ýmsum toga leyndist hér og þar. Það fannst til dæmis bæði kvikmynd frá sjósetningu skipsins í Japan á sínum tíma, 8mm kvikmynd frá för skipsins hingað til lands og svo var einn aðili hér á bryggjunni í Fáskrúðsfirði sem stóð og myndaði komu skipsins fyrsta sinn í fjörðinn. Það var nánast lygilegt hvað það fannst mikið efni þegar djúpt var leitað. Ég hafði meðal annars upp á íslenskum verkfræðingi sem sendur var til Japans á sínum tíma til að fylgjast með smíði skipanna og svo vildi til við eftirgrennslan að hann býr nú rétt hjá mér í Kópavoginum. Ég tók auðvitað viðtal við hann og hann kom með austur þegar við frumsýndum myndina í síðasta mánuði.“

Sjálfur er Guðmundur fæddur og uppalinn á Fáskrúðsfirði og bæði hann og fleiri fjölskyldumeðlimir störfuðu um tíma í gamla Hoffelli Loðnuvinnslunnar en það var einnig eitt þessara þekktu Japansskipa.

„Ég fór einmitt sérstaklega einn túr með Ljósafellinu þegar ég var að vinna að gerð heimildarmyndinarinnar enda fannst mér ótækt annað en ná myndum af ferðum skipsins og vinnslu um borð í nútímanum. Það rifjaði upp þann tíma þegar ég sjálfur var einn af áhafnarmeðlimum á slíku skipi á sínum tíma.“

Ljósafellið fékk andlitslyftingu í tilefni af fimmtugsafmælinu í sumar sem leið. Sögu þessa síðasta Japanstogara landsins gerð góð skil í heimildarmynd Guðmundar Bergkvist. Mynd Loðnuvinnslan/Gunnar Þrastarson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar