„Það er gott að finna þessa miklu samkennd“

„Þetta fyllir mann þakklæti sem er góð tilfinning,“ segir Sigurlaug Hreinsdóttir, móðir Birnu Brjánsdóttur, sem minnst var á Austurlandi á laugardaginn.



Birnu Brjánsdóttur var minnst víða um land á laugardaginn, en hún hvarf sem hvarf sporlaust úr miðbæ Reykjavíkur 14. janúar síðastliðinn og fannst látin við Selvogsvita á Reykjanesi 22. janúar.

Móðurfjölskylda Birnu á ættir sínar að rekja í Skriðdal, en þau bjuggu á bænum Arnhólsstöðum allt til ársins 1995. Birnu var því bæði minnst í Egilsstaðakirkju og á Reyðarfirði þar sem fjölmenni safnaðist við Andapollinn og tendraði á útikertum til minningar um hana. Útför Birnu fer fram frá Hallgrímskirkju á föstudaginn. 


Hjálpar að hugsa fallegar hugsanir

„Það er erfitt að segja. Ég hugsa að það skipti meira máli en maður gerir sér grein fyrir núna,“ segir Sigurlaug (Silla) móðir Birnu, aðspurð hvort viðburðir sem þessir skipti fjölskylduna máli á erfiðum tímum.

„Það er gott að finna þessa miklu samkennd. Og þetta er líka svo fallegt, óendanlega fallegt og fegurð er alltaf heilandi. Og líka af því þetta er svo mikið áfall þá hjálpar það manni að hugsa fallegar hugsanir.“

Ljósmynd: Ásgeir Methúsalemsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar