Tekið til eftir leikmenn vetrarins
Hreindýr gera sig orðið heimakomin á Djúpavogi nær allt árið, utan hásumarsins sem einnig afmarkar veiðitímabilið. Myndir af þeim á íþróttavelli staðarins hafa meðal annars vakið lukku.Íbúar á Djúpavogi, sem Austurfrétt hitti í síðustu viku, lýstu því hvernig þeir hefðu nánast horfst í augu við hreindýr út um eldhúsgluggann.
Lítill hópur hefur haldið sig sunnan við bæinn, á svæðinu í kringum kirkjuna og íþróttavöllinn. Dýrin urðu ekki á vegi Austurfréttar en þau höfðu þó verið þar um morguninn. Íbúarnir sögðu dýrin vera við bæinn nánast allt árið orðið þótt þau hverfi yfir hásumarið.
Ummerki um veru þeirra var hins vegar að finna þar því starfsmenn sveitarfélagsins voru á íþróttavellinum að moka í burtu skít eftir hreindýr og gæsir sem hafa hafst þar við í vor. Er það hluti af því að gera völlinn tilbúinn fyrir íþróttaæfingar sumarsins auk þess sem til stendur að spila þar í Djúpavogsdeildinni á sjómannadag.
Hilmir Dagur Ólafsson gerir völlinn tilbúinn eftir ágang villtra dýra þar að undanförnu.