![](/images/stories/news/folk/Ragnhildur_Aðalsteinsdóttir.jpg)
„Þetta er minn lífsstíll og stór hluti af sjálfsmyndinni“
„Ég áttaði mig á því að það er vel hægt að lifa lífinu án áfengis og því fylgir í raun alveg gífurlegt frelsi,“ segir Ragnhildur Aðalsteinsdóttir frá Vaðbrekku í Hrafnkelsdal, en hún var í opnuviðtali í síðasta Austurglugga.
Ragnhildur er fjölmiðlafræðingur og ljósmyndari að mennt og hefur starfað sem blaðamaður á Vikunni í mörg ár. Ragnhildur leggur mikla rækt við líkama og sál – hleypur sér til ánægju og hugar að réttri næringu. Einnig hætti hún að drekka áfengi þegar hún var 26 ára gömul og segir það hafa verið sitt mesta gæfuspor.
„Þarna var ég nýlega búin að eignast eldri drenginn minn. Áður en ég varð ófrísk að honum var ég farin að átta mig á því að ég og vín áttum ekki vel saman. Í stað þess að ná betri stjórn á minni drykkju með aldrinum versnaði hún hjá mér, ef eitthvað var.
Ég drakk alls ekki oft en þegar ég gerði það drakk ég illa og leið alltaf illa í kjölfarið, andlega og líkamlega. Fyrir forvitnissakir ákvað ég að prófa að fara á fund hjá samtökum sem styðjast við sporin tólf. Aldrei hafði hvarflað að mér að ég væri alkóhólisti en á fundunum, þegar ég heyrði í öðrum, rann upp fyrir mér að ég var akkúrat það. Alkóhólismi snýst um svo margt annað en það sem við drekkum, hversu mikið og oft. Hann snýst að mörgu leyti um hvernig okkur líður þegar við erum ekki að drekka.
Ég hellti mér út í tólfsporavinnuna af fullum krafti, vann mikið í sjálfri mér og öðlaðist í raun nýtt líf. Í dag er ég alveg hætt að spá í það hvort fólk í kringum mig drekkur eða ekki.
Mér finnst frábært að hafa fulla stjórn á mínum aðstæðum, ég kem og fer á mínum bíl þegar mér sýnist og er aldrei með móral eða þynnku daginn eftir. Þetta er minn lífsstíll og stór hluti af sjálfsmyndinni.“
Þetta og svo miklu meira um Ragnhildi í nýjasta tölublaði Austurgluggans.