„Þetta gerist ekki betra“
„Þú getur í rauninni rennt þér frá fjallstoppi niður í sjó,“ segir Marvin Ómarsson, annar eiganda fyrirtækisins Austurríkis, sem rekur skíðasvæðið í Oddsskarði. Að austan á N4 heimsótti svæðið á dögunum, en nú er hið árlega Páskafjör framundan.
Oddsskarð er eitt skemmtilegasta skíðasvæði landsins og oftar en ekki kallað Austfirsku alparnir. Þar verður nóg um að vera um helgina þegar hin árlega útivistarhátíð Páskafjör stendur yfir, en þá er mikið um að vera í skarðinu og skemmtilegir viðburðir af ýmsu tagi svo sem brettakvöld, björgunarbátarall, Tíróladagur og páskaeggjamót.
„Staðan er góð, við erum að fá nýjan snjó sem er ekkert smá ferskur og skemmtilegur. Veðurspáin brosir svakalega til okkar – á föstudag er gert ráð fyrir meiri snjókomu og á laugardag og sunnudag verður hæg norðanátt og bjartviðri, þetta gerist ekki betra,“ sagði Marvin í samtali við Austurfrétt í morgun þegar hann var inntur eftir stöðunni fyrir Páskafjörið.
Hér má lesa nánar um dagskrána.
Opið í Stafdal alla páskana
Einnig verður opið í skíðasvæðinu Stafdal á Seyðisfirði alla páskana og þar er glæsileg dagskrá sem má sjá hér.