Töframaðurinn Einar Mikael á ferð um Austurland
Töframaðurinn Einar Mikael heimsækir Austurland um helgina og sýnir á fjórum stöðum.
Fyrsta sýningin verður á morgun, fimmtudaginn 3. nóvember í Miklagarði á Vopnafirði klukkan 20.00, föstudag á Kaffihúsinu á Eskifirði klukkan 16:00 og 21:00, í Nesskóla í Neskaupstað klukkan 15:00 á laugardag og loks í Sindrabæ á Höfn klukkan 15:00 á sunnudag.
Einar lýsir sýningum sínum sem samblandi af áhrifamiklum töfrum og húmor sem henti vel bæði börnum og fullorðnum. Eitt beittasta vopn hans eru töfrabrögð í návígi. Þá gefst fólki kostur á að sjá töfrabrögðin gerast beint fyrir framan sig og jafnvel í höndunum á sér en ekki úr fjarlægð uppi á sviði. Einar tekur þá ekki endilega athygli allra á staðnum í einu heldur einbeitir hann sér jafnvel að færri í einu og færir sig á milli fólks.
Auk sýninga á Íslandi hefur Einar Mikael sýnt í Bandaríkjunum, Noregi, Svíþjóð og í Færeyjum.
Hver sýning er um 70 mínútna löng og ekkert hlé er tekið. Miðaverð er 1500 krónur.