Þau hörðustu biðu eftir miðum á þorrablót Egilsstaða frá 9:20 í morgun
Tæplega 80 manns biðu utan við Egilsstaðaskóla í hádeginu eftir að miðasala hæfist á þorrablót Egilsstaða sem haldið verður næsta föstudag. Þau sem fyrst komu biðu alls í tæpa fjóra klukkutíma þótt í gildi væri gul veðurviðvörun vegna norðaustanhríðar. Öll þau sem biðu náðu í miða.Halldóra Tómasdóttir og Úlfar Trausti Þórðarson voru fremst í röðinni. Þau mættu á svæðið klukkan 9:20 í morgun. „Við ætlum ekki að kaupa nema fjóra miða en ég var það stressuð að ná þeim að þegar ég frétti í gær að fólk ætlaði að mæta snemma, þá stillti ég vekjaraklukkuna. Við drifum okkur af stað þegar hún hringdi í morgun.“
Úlfar segir að þegar þau komu fyrst í morgun hafi þau verið alein og efast um að þau væru á réttum stað. Þau hafi þó róast þegar meðlimir úr þorrablótsnefndinni sáust á ferðinni. Úlfar og Halldóra biðu í bíl sínum þar til næstu miðakaupendur komu á svæðið um klukkan hálf tíu.
Hver einstaklingur mátti kaupa 30 miða
Um klukkan tíu hafði einföld röðin náð út fyrir fordyrið. Fólk sýndi af sér hörku, enda gul viðvörun í gildi vegna hríðar og leiðinlegt veður. Til að bregðast við því fór röðin að hlykkjast eins og ormur undir þakinu yfir fordyrinu.
Þorrablótsnefndin ákvað um klukkan 12:40 að hleypa fólki inn í skólann, þótt miðasalan byrjaði eftir sem áður á tilsettum tíma klukkan 13:00. Þegar hleypt var inn voru um 80 manns í röðinni. Alls var veitt leyfi fyrir 660 gestum á blótið en samkvæmt tölum Hagstofunnar búa um 1960 einstaklingar 18 ára og eldri á Egilsstöðum. Reglurnar eru þær að hver einstaklingur má kaupa 30 miða en verður að staðgreiða þá. Hver miði kostar 15.000 krónur.
Félagslíf í biðröðinni
Einhver þeirra sem biðu í röðinni voru brennd af því að hafa ekki mætt nógu snemma í fyrra til að ná í miða. Í þeim hópi voru Glúmur Björnsson, Bríet Finnsdóttir og Hrafn Heiðar Guðmundsson sem sátu við hlið Halldóru og Úlfars í tjaldstólum og spiluðu á spil með bakpoka fyrir borð.
„Í fyrra komum við klukkutíma áður en miðasalan opnaði og lentum á biðlista. Við rétt komumst á blótið,“ útskýrir Bríet á milli þess sem hún rakaði að sér slögunum í rommý.
Þorrablótsnefndin setti út hátalara sem spilaði tónlist til að stytta fólki stundir. Fólk var vel klætt, flest í kuldagöllum og margt með heita drykki með sér. Sumir jafnvel með einhverju út í – en þó ekki spilafólkið. „Við kunnum ekki við neitt sterkara en kakó fyrir hádegi á laugardegi,“ bætir Bríet við.
Halldóra segist hafa komið með bók og stól með sér í morgun. Síðan hafi reynst of dimmt til að lesa og hún ekki kunnað við að horfa niður í bókina heldur viljað tala við fólkið. „Mér fannst svo ófélagslegt að fara bara að lesa.“
Þau höfðu vaktaskipti. Eftir að hafa tryggt sér fremsta plássið í röðinni fór Úlfar heim til að borða en kom svo til baka og skipti við Halldóru. Þau segja fjöldann í hádeginu að hluta til skýrast af því að fleiri hafi beitt sömu aðferð.
Blótið biðarinnar virði
Þau segja biðina þess virði. „Við höfum komið á hverju ári eftir að við fluttum í Egilsstaði. Það er bara í fyrra sem það var löng röð. Fyrir tveimur árum dugði að mæta rétt áður en miðasalan byrjaði,“ segir Úlfar. Þau treysta á að blótið verði biðarinnar virði. „Við vonum það, við höfum skemmt okkur vel þegar við höfum farið. Þetta er samfélagsskemmtun. Það hefur líka verið ákveðin stemming í að bíða hér.“
Sandra Valdimarsdóttir, annar formanna þorrablótsnefndarinnar, segir nefndina tilbúna að standa undir væntingunum. Hún ætlar sér að gera breytingar á blótinu, megnið af matnum verður á hlaðborði. „Þetta verður geggjað! Janúar hefur verið strembinn en við erum gríðarlega spennt. Þetta er mikilvægt verkefni fyrir samfélagið.“
Miðasölunni lauk rétt fyrir klukkan 14:00. Öll þau sem biðu í röðinni fengu miða. Örfáir miðar eru enn lausir og verða auglýstir fljótlega. Eins verða auglýstir miðar á lokaæfingu blótsins sem fer fram á fimmtudag. „Það er ákveðinn hópur sem sækir í hana.“
Sandra útskýrir að miðasalan sé bara eitt skrefið í upphitun fyrir blótið. Á kaffistofum bæjarins beri fólk saman miðana, hvar það muni sitja en rýni einnig í nöfn borðanna sem gefa vísbendingar um þema blótsins. „Fólk veltir þessu frá sér út frá heitunum og öðru sem við höfum sent frá okkur,“ segir hún að lokum.