„Þegar maður sér árangur er gaman að halda áfram“

Hjónin Sigrún Snorradóttir og Guðmundur Eiríksson, ábúendur á Starmýri I í Álftafirði, fengu í vor landgræðsluverðlaunin fyrir uppgræðslustarf á jörðinni frá árinu 1995. Þá hófu þau þátttöku í verkefninu Bændur græða landið

„Landgræðslan bauð bændum styrki til uppgræðslu í gegnum átakið Nágrannarnir komu að orði við okkur hvort við vildum ekki prófa. Þeir sáu á undan mér að þetta stæði til boða. Við höfðum í og með áhuga á að fara í uppgræðslu en styrkir Landgræðslunnar voru það sem kveiktu í okkur að fara út í þetta,“ segir Guðmundur í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Þríbýlt er á Starmýrarjörðinni en Sigrún og Guðmundur voru þau sem úthaldið höfðu í landgræðsluna. „Við vorum fyrst saman, bæirnir þrír. Svo fluttu ábúendur á öðrum þeirra burtu og hinir fóru í skógrækt. Við höfum því eiginlega staðið ein eftir. Við hættum reyndar með þau svæði sem við byrjuðum fyrst á, þau voru lengst frá okkur. Okkur fannst eðlilegra að byrja nær bænum.“

Sem fyrr segir var það árið 1995 sem þau hófu uppgræðsluna. „Það veitti ekki af. Hér var mikið af berri jörð, víða berir melar og mikill mosi. Okkur fannst gott ef það væri hægt að styrkja gróðurinn eitthvað,“ segir Sigrún.

Einn vandræðablettur á tugum hektara

Aðspurð svara þau að þau séu ekki viss um hversu mikið land hafi verið grætt upp á jörðinni. „Ég hef eiginlega ekki hugmynd um hvað það er orðið stórt. Þetta eru einhverjir tugir hektara,“ svarar Guðmundur.

Almennt hafi uppgræðslan gengið vel en einn blettur á svæði skammt fyrir innan bæinn reyndist erfiður. „Lengi vel var alveg sama hvað reynt var þar, það gerðist ekki neitt. Svo byrjuðu að koma gróðurblettir þar og þá náði gróðurinn sér fljótt á skrið,“ segir Guðmundur.

Uppskriftin að uppgræðslunni er ekki flókin, notast er við fræ og tilbúinn áburð. Á sum svæðin hefur einnig verið borinn skítur og eins hefur verið notað moð og heyrusl. Árangur moðsins sést til dæmis í melunum sem eru milli Starmýri I og II og blasa við þegar keyrt er í hlað hjá Sigrúnu og Guðmundi.

„Yfirleitt hefur gengið vel og áburðargjöfin verið fljót að skila árangri. Oftast dugar að fara eina ferð með fræ og áburð. Það þarf ekki svo mikið, 150 kg á hektara. Það vantar greinilega bara smá næringu til að ná gróðrinum af stað,“ segir hann.

Nauðsynlegt að halda gróðrinum við

Samstarfið gengur þannig fyrir sig að Landgræðslan leggur til áburð en bændurnir flutninginn á honum, tæki, land og vinnu. Landgræðslan aðstoðar einnig við skipulagningu svæðanna og áburðarvalið. Bæði eru sammála um að samstarfi við stofnunina hafi gengið vel.

En þótt búið sé að ná gróðrinum af stað þarf að sinna honum áfram með að bera reglulega á hann. „Grasið verður voðalega mórautt og dauðlegt að sjá ef alveg er hætt að setja á það áburð. Þá eru haustlitir á því allt sumarið. Það vantar greinilega eitthvað í næringu til að halda grasinu nógu vel við. Við skiptum því á milli ára að bera á svæðin til að halda þeim við,“ útskýrir Sigrún.

Uppgræðsla og sauðfjárrækt fara vel saman

Þau benda á að hlýnandi loftslag og að vetrarbeit sé úr sögunni hjálpi gróðrinum. Á móti hafa svæðin sem grædd eru upp aldrei verið girt af þannig að sauðfé getur valsað um þau að vild. „Uppgræðslan skilar árangri þrátt fyrir beitina. Það er svo sem ekki svo margt fé á svæðinu, þetta væri kannski öðruvísi ef landið væri þétt setið,“ segir Guðmundur.

Þeirra upplifun er því sú að landgræðsla og sauðfjárbeit geti vel farið saman. Þau segja að í nærumhverfinu sé jákvæðni í garð landgræðslu. Lengra frá heyri þau frekar raddirnar um að landgræðsla og sauðfjárrækt fari ekki saman.

„Sumir hafa haldið því fram að bændur græði ekkert upp. Það er leiðinlegt að heyra í fólki sem hefur enga þekkingu á því sem það er að tala um, en það kemur fyrir á mörgum sviðum. Þetta heyrist helst frá þeim sem lengra eru frá,“ segir Guðmundur.

Mikill munur á ásýnd landsins

Fleiri kostir eru þó við uppgræðsluna en aukið beitarland. „Það er mikill munur á ásýnd landsins. Það er skemmtilegra að landið líti svona vel út. Manni líður betur með það. Maður vill skila landinu í betra ástandi en það var,“ segir Sigrún.

Veðurfarið hefur líka aðeins breyst. „Það fýkur ekki lengur grjót á húsið eins og það gerði. Áður en melirnir næst bænum voru græddir upp fauk úr þeim. Maður heyrði stundum þegar grjótið buldi á bænum,“ segir Guðmundur.

Þau halda líka áfram að bæta nýjum svæðum við uppgræðsluna. „Þegar maður sér árangur er gaman að halda áfram,“ segir Sigrún.

En það var ekki þráin eftir verðlaunum og viðurkenningu sem rak þau áfram. „Það kom mér í opna skjöldu að fá verðlaunin. Aldrei hefði mér dottið í hug að ég fengi verðlaun fyrir það sem ég er að gera. Það er hlutur sem ég bjóst ekkert við,“ segir Guðmundur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar