„Þið eruð ekki ein þó að myrkrið sé mikið“

Eskfirðingurinn Sigurgeir Svanbergsson hefur um langt skeið lagt ýmsum hjálparsamtökum landsins lið gegnum söfnun áheita fyrir löng og erfið sjósund. Í nóvember stefnir hann aftur á haf út og að þessu sinni til að veita Píeta-samtökunum hjálparhönd.

Nákvæm dagsetning liggur ekki fyrir að sögn Sigurgeirs enda þurfa veður og vindar að vera með ákveðnum hætti til að hægt sé að leggja í hann. Ólíkt fyrri áheitarsundum hans ætlar hann nú að leggja í hann óvenju seint á árinu, í nóvember, og gerir sér vel grein fyrir að þetta verði að öllum líkindum hans erfiðasta sund.

„Það er töluverður munur á að synda í nóvember en fyrr á árinu eins og ég hef gert áður. Ég er vanari sjóhitastigi kringum tólf, þrettán stigum en svona seint erum við líklega að tala um sjóhita upp á tvö til þrjú stig. Svo það verður assgoti kalt. Ég ætla þó ekki að láta sundskýluna duga heldur verð í sérstökum köfunargalla sem reyndar er hannaður fyrir köfun í volgu vatni svo vörnin verður ekki mikil. En það er í góðu lagi því ég er alltaf að reyna að ögra mér meira.“

Sigurgeir hefur gegnum tíðina fengið samfylgd og aðstoð í sundum sínum frá kajakræðaranum Sóleyju Gísladóttur og til að bæta smá gráu ofan á þegar erfitt sund ætlar Sigurgeir nú jafnframt að draga Sóleyju á kajak sínum.

Píeta-samtökin segir hann hafa orðið fyrir valinu því margir Austfirðingar eigi um sárt að binda andlega en samtökin þau sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða auk þess að styðja við bak aðstandenda. Hefur Sigurgeir skýr skilaboð til allra sem eru hugsanlega að kikna.

Fyrir alla þarna úti sem sjá bara eina leið, finnst það ekki hafa neinn að og eru búin að gera sér þær hugmyndir um að heimurinn væri betri án þeirra, þá er ég með skilaboð til ykkar. Það er alltaf einhver þarna úti sem myndi halda í höndina ykkar í gegn um helvíti og fara svo enn lengra án þess að sleppa takinu. Þið eruð ekki ein þó að myrkrið sé mikið.

Áheitasöfninin fer fram á vef Píeta-samtakanna og hefst síðar í vikunni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar