Þjóðsöngurinn sunginn saman - Myndir
Dagskrá fullveldishátíðarinnar á Egilsstöðum á laugardag lauk á því að gestir risu úr sætum sínum. 100 ára afmælis fullveldis Íslands var fagnað víða um fjórðunginn þrátt fyrir fannfergi.Hátíðardagskrá var á sal Menntaskólans á Egilsstöðum á laugardag þar sem meðal annars komu fram Dúkkulísurnar, kammerkór Egilsstaðakirkju og rithöfundurinn Jónas Reynir Gunnarsson sem las hátíðarávarp.
Í sölum skólans voru sýningar sem að mestu byggðust á verkum nemenda í tilefni 100 ára afmælisins. Var þar bæði um að ræða sagnfræðivinnu en líka verk sem áttu að vekja gesti til umhugsunar um umhverfismál, en sjálfbærni hefur verið útgangspunktur Austurbrúar á þessum tímamótum.
Í ávarpi sínu á laugardag sagði Signý Ormarsdóttir, fulltrúi stofnunarinnar, að sú framtíðarhugsun hefði vakið athygli langt út fyrir fjórðunginn.
Í lok dagskrárinnar risu gestir úr sætum og sungu saman þjóðsönginn undir forustu kórsins.
Það sama var gert víða, til dæmis á Vopnafirði þar sem karlakór staðarins leiddi sönginn. Þar var dagskrá með sýningum á verkum nemenda úr grunnskólanum.
Nemendur á Djúpavogi sýndu einnig sín verk í Löngubúð en þeir höfðu í myndlistartímum unnið að nýjum útgáfum af íslenska skjaldarmerkinu.
Fjöldi manns lagði einnig leið sína á Eskifjörð þar sem Sinfóníuhljómsveit Austurlands hélt sína fyrstu tónleika.