„Þörfin fyrir að mála er meðfædd“
Tryggvi Ólafsson, myndlistarmaður, hlaut á síðasta ári riddarakrossa frá bæði forseta Íslands og dönsku drottningunni. Tryggvi er uppalinn Norðfirðingur en bjó í tæp 50 ár í Danmörku þar sem hann lærði og starfaði við myndlist.„Því verður aldrei breytt að ég er Norðfirðingur. Norðfjörður og Kaupmannahöfn eru þeir staðir sem ég á í lífinu sem mína staði. Mér þykir óhemju vænt um Kaupmannahöfn. Þar hef ég átt margar af mínu fínu stundum.
Það er alveg sama hvar þú elst upp sem krakki, þú tekur alltaf ástfóstri við þann stað ef fólk er gott við þig. Það var eins og allir vildu allt fyrir mig gera á Norðfirði, þó ég hefði annað áhugamál en flestir í aðra röndina,” segir Tryggvi í viðtali í síðasta tölublaði Austurgluggans.
Sjómaðurinn á listasafninu
Tryggvi var 16 ára þegar fjölskylda hans fluttist suður til Reykjavíkur. Hann hélt þó áfram að koma austur og var þar meðal annars á sjó áður en hann fór út til Danmerkur.
„Ég er sannfærður um að þörfin fyrir að mála er meðfædd, eins og matarlyst. Í fyrsta sinn sem ég fór til útlanda kom ég til Grimsby á togara. Ég man enn eftir 2-3 myndum sem ég sá á listasafninu þar. Hvaða íslenskur sjómaður nema ég heldurðu að hafi farið á listasafnið í Grimsby?“ spyr Tryggvi.
Hann bætir því við að hitt sem hann muni úr ferðinni sé að hafa gengið óvænt fram á gufueimreið, eins og í kúrekamyndunum sem hann sá sem barn í Norðfjarðarbíói.
Snúið líf með unga fjölskyldu
Tryggvi fluttist út að loku stúdentsprófi og hóf nám í Konunglegu listakademíunni. Kona hans, Gerður Sigurðardóttir, kom skömmu síðar og eftir langa dvöl í Danmörku eignuðust þau dótturina Gígju. Lífið fyrstu árin hjá ungu hjónunum með ung börn var ekki alltaf auðvelt.
„Við vorum alveg bláfátæk. Gerður fór strax að vinna á skrifstofu, það hjálpaði heldur betur fjárhagslega fyrstu árin. Ég segi bæði í gríni og alvöru að ég sé búinn að borga það til baka fyrir löngu síðan.
Ég vann alls staðar í andskotanum á sumrin. Eitt af því sem hefur hjálpað mér að ég er mannblendinn og ég var oft heppinn úti í Kaupmannahöfn með að fá smá djobb hér og smá þar; mála skreytingu, teikna í bók. Lífið gat verið helvíti snúið með krakka en soltið höfum við aldrei.
Það er ekki lítið sem ég er búinn að slá 50 danskar hér og þar og borga aftur. Það gátu verið 4-5 máltíðir. Ég hefði aldrei fengið þær ef ég hefði verið einhver helvítis skepna sem ekki kunni að meta börnin þeirra sem lánuðu mér og borgaði ekki til baka.
Þegar kom fram yfir 1970 fór þetta að rýmkast. Eftir 1980 - að ég tali nú ekki um eftir 1990 - þá hafði ég góðar tekjur af því að mála. Ég seldi myndir en ég hef aldrei verið dýr. Það er ekki mitt áhugamál að verða heimsfrægur og ríkur. Grafíkmyndirnar mínar eru hugsaðar sem eitthvað sem venjuleg kennslukona hefur efni á að kaupa,“ segir Tryggvi. Hann lagði penslana á hilluna eftir slys 2007 en hefur síðan gert grafíkverk.
Orðlaus yfir bréfinu frá Magna
Árið 2001 var Málverkasafn Trygga Ólafssonar opnað formlega í gamla kaupfélagshúsinu í Neskaupstað, þar sem nú er Hótel Hildibrand en þremur árum síðar var það fært í Safnahúsið. Það var Magni Kristjánsson, skipstjóri, sem var hvatamaðurinn að því um aldamótin að í Neskaupstað yrði komið upp safni í nafni Tryggva.
„Ég var alveg orðlaus þegar maðurinn (Magni) skrifar mér bréf og spyr hvort ég hafi nokkuð á móti því, eins og hann orðaði það, að þeir byggju til safn yfir myndirnar mínar því hann átti svo margar. Ég varð alveg orðlaus – auðvitað varð ég að svara bréfinu játandi.
Við Magni höfum þekkst síðan við vorum strákar. Hann var fermingarbróðir bróður míns og ég þekkti líka pabba hans og mömmu, móðursystir hans og mamma pössuðu okkur oft þegar við vorum krakkar. Svo fer Tryggvi í þetta málningardrull sitt til Kaupmannahafnar og sést ekki neitt!“
Bréfaskriftir við Margréti drottningu
Það kom Tryggva nokkuð á óvart að fá orður frá íslenska og danska ríkinu fyrir ævistarfið. „Hvað á ég að gera við svona? Fyrst málar maður alla ævi og á rétt fyrir mat. Svo koma þeir hver á bakinu á öðrum og vilja gefa mér medalíur. Ég er klár á hver kemur næst. Það verður örugglega Trump. Hann hefur gert axarsköft síðan hann settist á bandaríska forsetastólinn og því væri dæmigert að hann kæmi með orðu handa mér,“ segir Tryggvi.
Þrátt fyrir háðsglósuna er augljóst að honum þykir vænt um orðurnar. „Að fá orðu frá Danadrottningu gerði mig enn meira hissa. Vegna veikinda komst ég ekki til Danmerkur til að taka við henni þannig að íslenski sendiherrann gerði það og sendi mér línu, upp á gamla mátann, um að hann kæmi með hana með vorinu. Ég sendi Margréti drottningu grafískt þrykk sem hún reyndar fékk á Amalienborg og það sem gerði mig mest hlessa var að hún hreifst af myndinni og sendi mér þakkarbréf!
„Æ skal gjöf til gjalda“ er sagt og þess vegna datt mér í hug að senda drottningunni eina grafíkmynd. Ég hringdi í sendiráðið og fékk að vita hver væri hin korrekta addressa. Ég skrifaði kurteislega á myndina á dönsku, þéraði hana og allt, án þess þó að skrifa „hendes majestæt“. „Majestæt“ þýðir að valdið komi frá guði en ég ætla ekki að skrifa undir það. Ég er ekki royalisti en ég get alveg skrifast kurteislega á við hana.
Ég hugsa með mér að hún fái mögulega aldrei bréfið, það lendi kannski bara einhvers staðar á konunglegri hillu en viti menn, lagsmaður – ég hef aldrei orðið eins hissa – kemur ekki bréf frá drottningunni þar sem hún þakkar fyrir „dit dejlige smukke tryk“ (þitt laglega grafíkverk) í bréfi í fyrstu persónu. Hún má ekki senda Pétri og Páli einkabréf í fyrstu persónu svo fyrir neðan stendur Henning Fode, hirðstjóri.
Sendiherrann segir mér að hún hafi þekkt myndirnar mínar fyrir. Hún kom löngu áður á sýningu þar sem voru verk mín ásamt annarra og spásseraði í gegn með Hinrik sinn. Sendiherrann uppástendur að þótt einhver nefnd hafi fundið upp á að mér væri afhent medalían hafi drottningin áttað sig hver ég var. Það þykir mér gott minni og athyglisgáfa. Þá erum við búnir með drottningarsögurnar í dag.“
Tryggvi með Danneborg-orðuna. Mynd: Úr einkasafni