Þrír nemendur úr VA á Evrópumóti iðngreina

Þrír fyrrverandi nemendur Verkmenntaskóla Austurlands eru komnir til Gdansk í Póllandi þar sem Euroskills, Evrópumót iðn-, verk- og tæknigreina verður haldið.

Mótið verður sett í kvöld en keppnin hefst á morgun og stendur í þrjá daga. Lokaathöfn og verðlaunaafhending verða á laugardag.

Alls keppa ellefu Íslendingar á mótinu og eiga þrír þeirra bakgrunn í VA. Það eru Hlynur Karlsson, sem keppir í rafeindavirkjun, Írena Fönn Clemmensen, sem keppir í hársnyrtiiðn og Przemyslaw Patryk Slota, sem keppir í rafvirkjun.

Þau eru reyndar öll útskrifuð úr skólanum. Hlynur lauk grunndeild rafiðna árið 2021 og keppir fyrir Tækniskólann. Írena Fönn lauk sinni fjórðu önn í háriðn við VA 2019 og keppir fyrir Verkmenntaskólann á Akureyri. Þau tvö urðu Íslandsmeistarar í á Íslandsmóti iðn- og verkgreina í vor. Patryk lauk námi í rafvirkjun frá VA 2017 og varð Íslandsmeistari 2019. Hann er skráður sem keppandi VA.

Von er á 600 keppendum ásamt þjálfurum frá 32 þjóðum á Euroskills. Íslenski hópurinn telur alls um 40 manns. Keppt er í 42 greinum og búist við um 100 þúsund áhorfendum.

Íslenski hópurinn ásamt liðs og fararstjóra í Gdansk. Írena Fönn er lengst til vinstri í fremri röð. Hlynur er þriðji frá hægri og Patryk fjórði í aftari röðinni. Mynd: Samtök iðnaðarins

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar