Þrjátíu ára afmæli Burstarfellsdagsins á sunnudag

„Þetta verður þrítugasta árið sem við höldum þennan viðburð en hversu lengi við getum í viðbót verður bara að koma í ljós,“ segir Eyþór Bragi Bragason, safnstjóri Minjasafnsins á Burstarfelli í Vopnafirði.

Þar verður húllumhæ á gamla mátann milli klukkan 14 og 17 á sunnudaginn kemur en Burstarfellsdagurinn trekkir jafnan mun fleiri á safnið fræga en dags daglega yfir sumarmánuðina. Yfir 400 manns hafa látið sjá sig þegar mest hefur verið en Eyþór segir aðsókn fara mikið eftir veðri í það og það skiptið.

„Veðurspáin er mjög góð á sunnudag, heitt og einhver sólarglæta, þannig að við búumst við fjölmenni. Allt verður að mestu með hefðbundnu sniði og við leggjum áherslu á að hafa sitthvað fyrir börnin eins og útreiðartúra og annað slíkt. Það eina sem við breytum nú er að við getum ekki boðið upp á vöfflurnar okkar eins og verið hefur. Það helgast einfaldlega af starfsmannaskorti en það verður ýmislegt annað í boði og alvöru kaffihlaðborð þess utan.“

Eyþór segir einmitt starfsmannaeklu skapa vandamál ár eftir ár og fara mjög versnandi.

„Eina leiðin undanfarin ár til að halda upp á þennan dag hefur verið að leita til fjölskyldunnar og vina til að hlaupa í skarðið. Unga fólkið virðist ekki spennt fyrir að vinna í nokkrar klukkustundir á sunndegi og það er orðið bagalegt að trufla alltaf fjölskyldumeðlimi til að halda þennan hátíðisdag. Hversu lengi það gengur upp skal ég ekki segja.“

Safnstjórinn hvetur þá sem mögulega geta að greiða þúsund króna aðgangseyrinn með peningum en ekki kortum en frítt eru fyrir 13 ára og yngri.

„Við erum bara með einn posa og ef margir láta sjá sig hefur það sýnt sig að það tefur mjög fyrir. Þetta er engin krafa en það mun hjálpa mikið og koma í veg fyrir bið við hliðið ef fólk á þetta í seðlum.“

Margt og mikið að vitna að Burstarfelli og ýmislegt aukreitis í boði á Burstarfellsdeginum. Mynd Minjasafnið

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.