Þurftu að taka borðin út til að koma fleirum fyrir
Húsfyllir var og rúmlega það í sal Hótel Héraðs á Egilsstöðum á baráttufundi sem boðað hafði verið til í tilefni kvennaverkfalls í dag.Boðað var til fundarins klukkan 13:00. Það dróst hins vegar um nokkrar mínútur vegna gríðarlegrar aðsóknar.
Stillt hafði verið upp í salnum þannig að hvert sæti var við borð enda boðið í kaffi eftir fundinn. Fljótt varð ljóst að aðsóknin var langt umfram það sem reiknað var með. Þess vegna kom til þess að borðin voru snarlega fjarlægð úr salnum og stólar bornir inn í staðinn.
Það dugði samt varla til. Fjölmargar konur stóðu meðfram veggjum eða frammi í hliðarsal meðan ræðurnar voru fluttar. Ljóst er að minnst 200 konur voru mættar í salinn en sætin voru um 80 talsins.
Viðburðurinn var skipulagður af Félagi kvenna í atvinnulífinu á Austurlandi. Þar töluðu Ragna S. Óskarsdóttir, Jóhanna Heiðdal, Jónína Brynjólfsdóttir, Margaret Johnson, Ra Tack og Iryna Boiko.
Nánar verður fjallað um fundinn og fleiri viðburði kvennaverkfallsins á Austurlandi síðar bæði á Austurfrétt og í Austurglugganum.