Skip to main content

Þýðingar á Aðventu og smásögum Gunnars fá hæstu styrkina

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. júl 2022 11:11Uppfært 04. júl 2022 15:28

Þýðingar á bókum Gunnars Gunnarssonar á annars vegar norsku, hins vegar hebresku, fengu hæstu styrkina þegar úthlutað var út Menningarsjóði Gunnarsstofnunar um helgina.


Annars vegar stendur til að þýða Aðventu til útgáfu í Ísrael, hins vegar tólf smásögur skáldsins til útgáfu í Noregi. Hvort verkefni fékk 400.000 króna styrk.

Þá fær Hnikun, bókverk þar sem unnið er með sögu Gunnarshúss á Skriðuklaustri og tengist sýningu sem sett verður upp í Sláturhúsinu á Egilsstöðum, 300.000 króna styrk. „Dwelling on the banks of Jökla“ - könnun á sambandi mannfólks og ómennskrar náttúru við Jöklu, fær 100 þúsund.

Jafnframt veitir sjóðurinn Gunnarsstofnun styrk vegna nýrrar miðlunar á Skriðuklaustri til að koma Ugga litla Greipssyni úr Fjallkirkjunni yfir í viðaukinn veruleika (AR). Heildarúthlutun úr Menningarsjóði Gunnarsstofnunar þetta árið nemur 2,2 milljónum króna.

Menningarsjóður Gunnarsstofnunar var stofnaður árið 2013 af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þriggja manna stjórn stýrir sjóðnum en samkvæmt skipulagsskrá er tilgangur hans tvíþættur: annars vegar að renna stoðum undir starfsemi Stofnunar Gunnars Gunnarssonar á Skriðuklaustri með árlegum framlögum til hennar; hins vegar að styðja rithöfunda, listamenn, fræðimenn og námsfólk til verka er samræmast hlutverki Gunnarsstofnunar.

Í vor var auglýst eftir umsóknum með sérstaka áherslu á list- og miðlunarverkefni tengd austfirskum menningararfi og verkefni tengd ritverkum og ævi Gunnars Gunnarssonar.