Töfrandi textar Aðventu túlkaðir í tónum

Hljómsveitin Mógil heldur um helgina tvenna tónleika með lögum sínum sem hún hefur unnið upp úr Aðventu, bók Gunnars Gunnarssonar, skálds frá Skriðuklaustri. Söngkona sveitarinnar segir töfrastundir skapast þegar texta Gunnars sé blandað saman við tónlistina.

„Við vorum á tónleikaferðalagi í Belgíu fyrir nokkrum árum og vorum að tala um hvað við myndum gera fyrir næstu plötu. Þá höfðum við sent frá okkur þrjár plötur sem allar tengdust árstíðunum.

Það leiddi okkur að jólunum. Við erum öll mjög hrifin af sögunni um Aðventu og fórum því að hugsa um hvernig við gætum sett hana í tóna. Við fórum að lesa bókina og úr því kom þessi plata,“ segir Heiða Árnadóttir, söngkona sveitarinnar, sem ættuð er úr Fljótsdal líkt og skáldið.

Heiða semur flesta textana en Joachim Badenhorst lögin. „Einn textinn á plötunni er beint upp úr bókinni, annars eru þessi kraftar eða tilvinningar úr bókinni eins og kuldinn, gangan, fegurðin á hálendinu, brostu draumarnir sem kallaðir voru út í loftið sem endurspeglast í tónlistinni.

Síðan verður Orri Huginn Ágústsson, leikari með okkur og hann les textana sem veittu okkur innblásturinn. Það dýpkar að hafa mann með og myndast einhver töfra stund,“ segir Heiða.

Sveitin spilar spunakennda tónlist þar sem klassík og djassi er blandað saman. Í sveitinni eru rafgítar, trompet og víóla auk Heiðu sem syngur.

Platan Aðventa kom út hjá þýska fyrirtækinu Winter & Winter árið 2019 en vegna Covid-faraldursins hefur sveitinni reynst erfitt að fylgja henni eftir. Heiða segir það ekki koma að sök.

„Við vorum stolt af að komast að hjá Winter & Winter sem er mjög virt avant garde plötufyrirtæki. Hún kom út haustið 2019 og við héldum tónleika hér heima en komumst ekki út eins og við ætluðum. Við áttum aftur að fara nú í desember en ófremdarástandið er slíkt að við förum ekki. Við höfum þó engar áhyggjur því tónlistin er sígild. Þetta kemur þegar það á að koma.“

Tónleikarnir á Skriðuklaustri hefjast klukkan 15:00 á laugardag en sveitin spilar síðan í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði klukkan 16:00 á sunnudag.

Á Skriðuklaustri er einnig von á Grýlu og hennar hyski á sunnudag, eins og venjan er um þetta leyti. Væntanlega eru tröllin bólusett fyrst þau voga sér til mannabyggða. Mannfólkið þarf þó að skrá sig hjá Skriðuklaustri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.