Töluvert fleiri fuglategundir nú en fyrir ári á Fugladeginum
Árlegur Fugladagur Náttúrustofu Austurlands og Ferðafélags Fjarðamanna fór fram fyrir skömmu en við það tilefni koma ferða-, og fuglaáhugamenn í Fjarðabyggð auk starfsmanna Náttúrustofunnar saman og skrá þær tegundir fugla sem sjást við leirur Reyðar- og Norðfjarðar í sumarbyrjun.
Reyndist fjöldinn sem nú sást til töluvert meiri en fyrir ári síðan. Voru skráðar nú einar 32 tegundir fugla á Reyðarfirði en 29 tegundir í Norðfirði auk tveggja blendingstegunda á fyrrnefnda staðnum. Til samanburðar töldust tegundirnar fyrir ári síðan 24 í Reyðafirðinum en einungis 14 í Norðfirði. Hugsanlega skiptir sköpum í þessu sambandi að fyrir ári fór Fugladagurinn fram í lok apríl en að þessu sinni tæpum tveimur vikum síðar. Fyrir tveimur árum síðan var tegundafjöldinn svipaður og nú var.
Þær tegundir sem skráðar voru að þessu sinni voru grá- og heiðagæsir, skúfendur, bjargdúfur, hettumáfar, stelkar, hrossagaukar, heiðlóur, jaðrakan, kríur, kjói, skógarþrestir, hrafnar, maríuerlur, stokkendur, urtönd, sandlóur, rauðhöfðaendur, tjaldar, lóuþrælar, spóar, silfurmáfur, tildrur, súla, teistur, æðarfuglar, straumendur, sendlingar, lómar, hávellur, fýlar , svartbakar, toppendur, hettu-, hvít-, silfur- og bjartmáfar, lóuþrælar og þúfu- og auðnutittlingar.
Þáttakendur komið hér auga á eitthvað markvert úti á leirunum í Norðfirði en vel hittist á með veður Fugladaginn þetta árið. Mynd NA