„Tónleikar fyrir fólk á aldrinum 0 til 103“
Síðdegis í dag fara fram tiltölulega óhefðbundnir fjölskyldutónleikar í Löngubúð á Djúpavogi þegar þar verða flutt lög af nýrri hljómplötu sem ber nafnið Hjartans mál.
Hér ekki aðeins um tónleika að ræða heldur sýningu í og með og eru gestir meðal annars hvattir til að mæta til leiks í náttfötum eða kósígalla og helst með teppi og bangsa í þokkabót og þannig hjálpa til við að skapa ljúfa og sérstaka stemmningu. Löngubúðarhúsið sjálft verður myrkvað að hluta meðan á öllu stendur til að skapa meiri nánd og töfraheim meðan áhorfenda.
Viðburðurinn er hluti verkefnis sem Hólmfríður Samúelsdóttir [Hófí] hefur unnið að um hríð undir nafninu Hjartans mál en samnefnd plata kom út fyrir skömmu og má meðal annars nálgast lög af þeirri plötu á tónlistarveitum á borð við Spotify og heyra má brot af lögunum á samnefndum vef á netinu.
Aðspurð segir Hófi að hugmyndin sé að skapa nánd og skemmtan í góðu tómi en hún hefur lengi íhugað gildi þess að nota sem flest skynfæri þegar tónlist er annars vegar.
„Sannarlega því tónlist tekur breytingum eftir því hvernig hlustað er á. Lygni fólk til dæmis aftur augunum meðan tónlistin streymir má finna allt aðra tilfinningu fyrir hlutunum en annars er og allir fara ósjálfrátt að nota önnur skynfæri eins og lykt. Ég hef lengi haft áhuga á þessu og þetta til dæmis ein ástæða þess að salurinn verður myrkvaður að stórum hluta. Okkur langar til að skemmta gestum með rólegri og ljúfri stemmningu og slíkt næst enn betur ef fólki líður vel.“
Tónlistin er að mestu róleg og textar laganna verða birtast samhliða á vegg með skjávarpa svo fólk getur raulað eða sungið með.
„Ég hef gert þetta áður og þar tókst það mætavel upp og ég vona innilega að allir sjái sér fært að kíkja í dag og eiga ljúfa stund saman. Þetta er alveg tónlist fyrir alla frá 0 og upp í 103 ára aldur og gaman væri að sjá alla aldurshópa njóta með okkur.“
Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 18 í dag og þökk sé stuðningi foreldrafélags grunnskóla Djúpavogs og Múlaþingi er frítt inn fyrir börn og ungmenni. Systir Hófí, Gréta Mjöll Samúelsdóttir auk þeirra Arnars Jónssonar og Ídu Maríu flytja tónlistina ásamt Hófí sjálfri.
Mynd frá fyrri Hjartans mál tónleikum Hófíar og félaga hennar en gott skal gera enn betur í Löngubúð í dag. Mynd Instagram/Hjartans mál