Tónleikaröð Bláu kirkjunnar lýkur í kvöld

Sumartónleikaröð Bláu kirkjunnar á Seyðisfirði lýkur í kvöld þegar systkinahljómsveitin Blood Harmony úr Svarfaðardal kemur fram.

Sveitin er skipuð þeim Ösp, Erni og Björk Eldjárn. Þau flytja tónlist er flokka mætti sem bræðing af norrænni, keltneskri og bandarískri (Americana) þjóðlagatónlist. Hjómsveitin hefur gefið út nokkur lög sem sum hver hafa náð vinsældum í útvarpi.

Blood Harmony hefur líka verið einkar dugleg við spilamennsku síðustu misserin og systkinin eru raunar nýkomin heim úr þriggja vikna tónleikaferðalagi um Bretland.

„Þetta eru síðustu tónleikar sumarsins á vegum Sumartónleikaraðar Bláu kirkjunnar og við viljum þakka öllum sem mættu, bæði flytjendum og gestum, og vonandi að sem flestir tónlistarunnendur komi og njóti tónleikanna annað kvöld,“ segir Sigurður Jónsson, stjórnarformaður tónleikaraðarinnar.

„Þá vil ég þakka Uppbyggingarsjóði Austurlands, Tónlistarsjóði Rannís, SVN og sveitarfélaginu Múlaþingi fyrir fjárstuðning. Það væri ómögulegt að halda úti svona metnaðarfullri tónleikadagskrá ef ekki væri fyrir öflugan stuðning og velvilja allra þessara aðila.“

Auglýst eftir flytjendum næsta sumars


Sumartónleikaröðin er 25 ára í ár en hún hóf göngu sína árið 1998. Það hefur ætíð verið lögð áhersla á að bjóða upp á vandaða og fjölbreytta dagskrá svo allir gætu fundið eitthvað við sitt hæfi og hún höfðaði til sem flestra.

Á næstu dögum verður auglýst eftir flytjendum fyrir tónleikaröð næsta sumars og tónlistarfólk um allt land er hvatt til að sækja um.

Tónleikar Blood Harmony hefjast stundvíslega klukkan 20:30 en húsið opnar klukkan 20. Miðar seldir við hurð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar