Tónlist getur raunverulega gert kraftaverk

Margrét Perla Kolka Leifsdóttir, framhaldsskólakennari í Neskaupstað, lærði tónlistarmeðferð í Danmörku á sínum tíma. Hún hefur í gegnum tónlistina náð sambandi við fólk langt gengið með alzheimer-sjúkdóminn.

„Ég er upprunalega úr Garðabænum. Pabbi minn heitinn var forstjóri Kassagerðarinnar í Reykjavík en það var fjölskyldufyrirtækið okkar. Langafi minn stofnaði það fyrirtæki á sínum tíma.

Pabbi minn og bróðir hans ráku það saman en svo gerist það að þeir voru báðir greindir með krabbamein á svipuðum tíma og hvorugum þeirra var hugað langt líf á þeim tímapunkti. Þannig að þeir einhentu sér í það á lokametrunum eiginlega að selja fyrirtækið áður en yfir lyki og það tókst, fyrirtækið var selt rétt áður en þeir létust báðir.

Auðvitað var draumur margra í fjölskyldunni að taka við og halda áfram en það var bara mjög skammur tími til stefnu, ekki margir kannski sem gátu stokkið í það fyrirvaralítið og á þeim tíma þurfti að koma til töluverð fjárfesting í nýjum tækjum og slíku þannig að úr varð að fyrirtækið var selt.

Ég sé töluvert eftir þessu í dag því þetta var ekki bara fjölskyldufyrirtækið okkar í fjölskyldunni, heldur í raun allra sem þar störfuðu. Það var nánast regla að börn og jafnvel barnabörn fólks sem þarna vann fengju þar vinnu og það gerði pabbi af ásettu ráði því það fólk sem starfaði fyrir hann gerði það af heilum hug og hann sagði oft að honum sjálfum liði betur ef vel færi um starfsfólkið hans.,“ rifjar Margrét Perla upp.

Hún segir vinnustaðinn hafa verið fjölbreyttan, allnokkrir einstaklingar með fötlun unnið þar og eins verið sérstök deild fyrir eldri borgara sem gátu unnið eins lengi og þeir vildu.

Hagfræðin heillaði ekki


Upphaflega hélt Margrét Perla í hagfræðinám í háskóla að loknum menntaskólanum. Það lá svona beinast við á þeim tíma vegna starfa hennar í Kassagerðinni.

„Ég held að ég hafi hugsað á þeim tíma að þetta væri nú aldeilis praktískt nám og byrjaði í því en ekki leið á löngu áður en ég fór næstum að drepast úr leiðindum. Hagfræðin er svo ferköntuð eitthvað. Þetta er bara tölur á tölur ofan en aldrei nokkurn tíma minnst á fólk eða manneskjur í þessum fræðum. Í dag fer ég bara að hlæja af tilhugsuninni um að ég hafi virkilega farið í þetta nám.“

Þó hagfræðin hafi ekki fangað Margréti þá segir hún að sálfræði hafi líka höfðað til sín á þessum árum. Hún hafði þá um nokkurt skeið stundað tónlistar- og söngnám en ekki beint tengt þann áhuga við hugsanlegt framtíðarstarf. Það breyttist fyrir tilviljun.

„Svo gerðist það einn daginn að ég heyrði af þessu sem kallast músíkþerapía eða músíkmeðferð eins og margir kalla þetta í dag. Það kviknaði umsvifalaust á perunni hjá mér að ég þurfti nú að skoða það nánar og fann fljótlega út að þetta er kennt í virtum skóla í Álaborg í Danmörku.

Þá veitti ég því líka athygli að í sama skóla var stór verkfræðideild en maðurinn minn var þá á sama stað í lífinu og mjög leitandi að einhverju framtíðarmarkmiði. Það varð úr að við fórum bæði út í nám í þessum skóla og þar vorum við í um fimm ára skeið að ljúka mastersnáminu.

Námið var vægast sagt erfitt sem gerir það að verkum að ég er afar súr með að þetta sé ekki orðið viðurkennt fag hér heima. Það þurfti að taka sérstakt inntökupróf og í bekknum voru aðeins tólf eða þrettán nemendur og það var þá stærsti árgangurinn sem komst í námið í þessum skóla. Margir þeirra flosnuðu upp og hættu vegna álags. Það þurfti góða færni í söng og á hljóðfæri auk alls þessa akademíska sálfræðilega náms sem er mikið út af fyrir sig.“

Tónlistarmeðferðin ekki viðurkennd hérlendis


Margrét Perla og maður hennar, Hlöðver Hlöðversson, fluttu ásamt börnum þeirra til Norðfjarðar 2008 og hafa verið þar síðar. Hún hafði þá nýlega lokið náminu. „Á þessum tíma hafði ég þegar klárað fimm ára mastersnám í músíkþerapíu og var að ljúka við þriggja ára viðbótarnám sem ég ákvað að sérhæfa mig í. Ég náði að ljúka því nokkrum mánuðum eftir að við fluttum austur og fór eiginlega strax að velta fyrir mér við hvað ég gæti notað námið fyrir austan. Ég fór því strax að þreifa fyrir mér og fékk meðal annars fljótlega verkefni hjá Krabbameinsfélaginu og starfsendurhæfingarstöðinni Virk. Svo fékk ég styrk frá SÚN til að vera með músíkmeðferð fyrir grunnskólanemendur með sérþarfir.

Það var sem sagt hreint ótrúlegt hvað fólk tók mér og mínu fagi vel strax frá byrjun því sannast sagna vissi ekki nokkur maður hvað músíkþerapía var á þeim tíma. Sá eini sem ég man eftir að hafa kveikt á perunni hvað um þetta snérist var Ágúst Ármann (Þorláksson), organisti, sem fannst mikið til þess koma að það væri kominn músíkmeðferðarfræðingur á Austurlandið.“

Tónlistin gleymist seint


Hún segir mörg dæmi þess að fólk hafi brugðist vel við músíkþerapíu og nefnir tvö dæmi, annað frá Danmörku, hitt úr Neskaupstað. „Þegar ég var í námi þurftum við alltaf að velja okkur stað fyrir starfsnám. Ég valdi stað þar sem ég var meðal annars að vinna með mann sem var mjög langt genginn með alzheimer. Þetta var alveg nýtt fyrir mér þá en þetta var maður sem hafði greinst mjög snemma með sjúkdóminn. Hann var á áttræðisaldri en hafði fyrst greinst tiltölulega ungur, strax um fimmtugt. Það var orðið afar langt síðan hann hafði tjáð sig eða talað og gat litla björg sér veitt.

Ég tók þá ákvörðun strax að gera ekkert nema setjast hjá honum og syngja fyrir hann. Ég spurði eiginkonu hans út í hans uppáhalds tónlist en hún gat varla munað neitt um það af því svo langt var um liðið. Þannig að ég fann út aldur hans og hvar hann hafði búið og útbjó lagalista út frá því. Svo bara settist ég hjá honum og hóf bara að syngja ýmis ljúf og róleg lög og það var með ólíkindum, að þessi maður, sem hafði varla sýnt svipbrigði um margra ára skeið, fór ekki aðeins að horfa beint í augun á mér mjög fljótlega, heldur komu brosviprur á hann og hann komst greinilega við þegar ég söng fyrir hann. Söngurinn náði greinilega inn í einhvern kjarna.“

Hitt dæmið tengist framúrskarandi harmonikkuleikara, sem einnig glímdi við alzheimer á efri árum .“Við erum að tala um mann sem var byrjaður að spila á böllum fyrir fermingu og var mikill skemmtikraftur. Hann stjórnaði söng og fór með gamanmál fyrir utan að spila á nikkuna eins og meistari. Á þeim tíma sem ég hitti hann hafði hann að mestu misst málið fyrir utan tvö til þrjú orð sem hann gat stunið úr út sér.

Þetta var hræðileg staða fyrir mann sem var svona mikil félagsvera og alltaf að spjalla um allt við alla. Tónlistin var líka horfin úr hans lífi því þeir sem höfðu gjarnan spilað með honum treystu sér ekki til þess lengur, auk þess sem hann var kominn með töluverða almenna verki.

Ég fékk konuna hans til að útbúa fyrir mig lagalista með lögum sem við vissum að hann kynni og hefði gaman af. Svo mætti ég, honum var hjálpað að setja harmonikkuna á sig, og ég hitti hann í um rúmlega tveggja ára skeið einu sinni í viku og við bara spiluðum fyrir fólkið sem var í kring. Það var aldrei hægt að halda uppi samræðum en ég byrjaði alltaf á að humma bara einhver lög sem hann þekkti og undantekningarlaust fór hann að ljóma og tók undir á harmonikkuna nokkrum andartökum síðar.

Svo notaði ég trix á borð við að hægja á söngnum mínum og þá fann hann að lagið var að taka enda og spilaði eftir því. Nokkurs konar tónskilaboð án orða. Þetta gerðum við lengi vel þangað til stuttu áður en hann dó. Það var svo gaman að sjá hann taka við sér í tónlistinni og hann gladdist alveg greinilega enn meira í þau skipti sem aðrir í kring fóru að taka undir í söngnum. Það fór ekkert á milli mála hjá neinum þar að það birti mjög yfir honum þegar það gerðist“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar