Trylltar tartalettur og heslihnetupinnar

Sífellt fleiri kjósa „grænan lífstíl“ og hafa hætt neyslu á kjöti og öðrum afurðum sem unnar eru úr dýrum. Hvað borða grænmetisætur um jólahátíðina?



Nýlega kom út bókin Eldhús grænkerans sem inniheldur um 120 uppskriftir að ljúffengum grænmetisréttum fyrir öll tilefni. Höfundar hennar eru þær Hanna Hlíf Bjarnadóttir, Katrín Rut Bessadóttir og Rut Sigurðardóttir en bæði Hanna Hlíf og Katrín Rut eiga tengingu við Austurlandið.

„Hanna bjó lengi á Reyðarfirði auk þess sem báðir foreldrar hennar eru að austan. Sjálf er ég unnusta Reyðfirðingsins Helga Seljan og ég á raunar ættir mínar að rekja til Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar,“ segir Katrín Rut.

Katrín og Hanna þekktust en þegar Katrín vann hjá tímaritinu Gestgjafanum plataði hún hana til þess að gerast lausapenni hjá blaðinu.

„Okkur vantaði einhverja „gúrme“ grænmetisætu. Rut byrjaði svo á ljósmyndadeild Birtíngs og við þróuðum með okkur alvarlega matarást á Hönnu og þurftum því ekki að hugsa okkur tvisvar um þegar Hanna fór að orða bók við okkur. Við tók hugmyndavinna, samtal við Sölku, útgáfuna okkar góðu, og svo tökudagar, stílisering og skrif. Um það bil ári síðar var fallega bókin okkar komin í verslanir,“ segir Katrín, en sjálf gerðist hún grænmetisæta við vinnslu bókarinnar en Rut hefur verið það í þrjú ár og Hanna þrjátíu.

 

 


Grænmetismáltíð býður upp á meira frelsi

Aðspurð hvort það sé ekki maus að elda hátíðargrænmetismáltíð svarar Hanna: „Alls ekki meira maus en að elda kjötmáltíð og býður raunar upp á meira frelsi. Ég hugsa reyndar að ég geri þetta að dálitlu mausi því mér finnst svo gaman að elda lengi. Mér þykir gaman að vanda mig við jólamáltíðina og koma mér og öðrum á óvart með útkomunni en aðfangadagur er einu sinni á ári og ég elda eitthvað nýtt á þeim degi á hverju ári. En, að því sögðu þá er hægt að einfalda hlutina og velja að gera þetta einfalt.“

Réttirnir í bókinni henta öllum og er tilvalin fyrir þá sem vilja meiri fjölbreytni í eldamennsku sinni og auka vægi grænmetisrétta á matarborði fjölskyldunnar. Í bókinni er sérstakur kafli um veganhráefni fyrir þá sem eru grænir í gegn, en það er allt það sem inniheldur engar dýraafurðir, hvorki af lifandi né slátruðum dýrum. Að auki má finna fjölda góðra ráða um nýtingu og mikil áhersla er lögð á að bera virðingu fyrir hráefninu og gera mat úr því öllu.

 


Trylltar tartalettur með bökuðu grænmeti (fyrir 4-6)

6 dl heilhveiti

1 tsk sjávarsalt

100 ml kalt vatn

100 g kalt smjör, skorið í litla bita (eða notið 75 ml af olíu)

Setjið allt hráefnið í matvinnsluvél. Þegar deigið er orðið að kurli, hellið því á hveitistráða borðplötu og hnoðið þar til það verður að bollu.

Breiðið yfir deigið og látið standa í ísskáp í um 1 klst. Hitið ofninn í 200°C. Fletjið deigið út á hveitistráðu borði og skerið í hringform, u.þ.b. 15 cm í þvermál. Setjið deigið í smurð muffinsform, best er að notast við gerðarleg álform eða silikonform. Pikkið deigið með gaffli og bakið í 15-20 mín. eða þar til tartaletturnar eru farnar að taka lit.

 

Bakað grænmeti

6 gulrætur, sneiddar smátt

100 g ferskur aspas, má líka vera úr dós

2 skalottlaukar, saxaðir

1 lítill haus spergilkál, skorinn smátt

Paprika, skorin í bita

1 rautt chilialdin, smátt skorið

3 msk olía

Hitið ofninn í 210°C. Setjið allt grænmetið í eldfast mót og veltið því upp úr olíunni. Bakið í um 20 mín.

 


Uppstúf með karrí

25 g smjör eða vegansmjör

25 g hveiti

3 dl mjólk eða jurtamjólk

3 msk púðursykur

1 tsk karrí

1 tsk grænmetiskrydd

1 tsk reykt paprikuduft

Svartur pipar eftir smekk

50 g rifinn cheddar eða veganostur að eigin vali

Hitið ofninn í 180°C. Bræðið smjör í potti, sáldrið hveitinu yfir og hrærið saman í smjörbollu. Hellið mjólkinni saman við hægt og rólega, hrærið stanslaust í á meðan. Bætið púðursykri og kryddi saman við og látið malla í 2-3 mín. Bætið bakaða grænmetinu við og hrærið þar til vel samlagað. Setjið jafninginn í bökuformin og stráið osti yfir. Færið í ofn og hitið í 5-10 mín. Í þennan rétt er hægt að nota hvaða grænmeti sem er til í ísskápnum hverju sinni.



Heslihnetupinnar (4-6 stykki)

Rjómaís eða vegan vanilluís

200 g hvítt súkkulaði

200 g dökkt súkkulaði

5 msk heslihnetukurl

Setjið ísblönduna í glös og frystið í u.þ.b. 2 klst. Takið þá glösin út og stingið gaffli í mitt glasið og frystið yfir nótt. Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði, hvora tegundina í sínum pottinum ef ykkur finnst það þægilegra. Takið glösin eða ílátin úr frysti. Dýfið glösunum í heitt vatn og dragið ísinn varlega út, veltið honum upp úr súkkulaði og þá hnetukurlinu. Geymið í frysti þar til bera á ísinn fram.



Vegan vanilluís úr kókosmjólk

400 ml kókosmjólk (1 dós)

2 dl möndlumjólk

2 tsk vanillu-extract eða fræ úr 1 vanillustöng

2 msk sykur

1/4 tsk salt

Opnið dósina, skafið kókosmassann úr dósinni og setjið í skál. Vökvann má geyma og nota t.d. í smoothie. Blandið öllu vel saman í matvinnslu- eða hrærivél þar til sykurinn er uppleystur. Setið í form, hyljið og frystið í a.m.k. 5 klukkutíma.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar